Tíðarfar í febrúar 2008
- stutt yfirlit
Tíðarfar í febrúar var víðast talið óhagstætt og jafnvel mjög óhagstætt til sjávarins. Illviðri voru tíð, einkum fyrir miðjan mánuð, og víða var talsverður snjór á jörðu. Mjög kalt var í upphafi mánaðarins, en hlýr kafli kom í kringum miðjan mánuð. Síðustu dagana var hiti aftur undir meðallagi.
Hiti var víðast heldur undir meðallagi um sunnan- og vestanvert landið en yfir því á Norðaustur- og Austurlandi.
Meðalhiti í Reykjavík var -0,2 stig og er það 0,6 stigum undir meðallagi. Á Akureyri var meðalhitinn -0,4 stig og er það 1,1 stigi ofan meðallags. Á Hveravöllum var meðalhitinn -5,9 stig og er það í meðallagi og á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 1,0 stig. Hiti var 0,2 stigum ofan meðallags í Stykkishólmi, 0,5 stigum undir því í Bolungarvík, 1,1 stigi yfir á Egilsstöðum og 0,7 stigum undir á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.
Úrkomusamt var í mánuðinum. Úrkoman í Reykjavík mældist 135 mm og er það 88% umfram meðallag, meiri úrkoma mældist í Reykjavík í febrúar 2003 og oft áður. Á Akureyri mældist úrkoman 69 mm og er um 60% umfram meðallag. Meiri úrkoma mældist á Akureyri í febrúar 2002.
Sólskinsstundir mældust 57 í Reykjavík og er það 5 stundum umfram meðallag. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 16 og er það 20 stundum undir meðallagi og er mánuðurinn sólarminnsti febrúar frá 1984 þar.
Snjór var meiri sunnanlands en algengt hefur verið síðustu árin. Talsvert meiri snjór var þó víðast hvar á þeim slóðum í febrúar árið 2000, þar á meðal í Reykjavík. Norðanlands var talsverður snjór fyrstu vikuna en þann snjó tók upp að mestu á láglendi þannig að snjólétt var síðari hluta mánaðarins.
Illviðrasamt var með köflum, versta áhlaupið gerði dagana 8. til 9. Víða varð tjón í veðrinu, bæði af völdum hvassviðris og asahláku.
Mjög hart frost var fyrstu 2 daga mánaðarins og fór hiti niður í -30,3 stig í Veiðivatnahrauni aðfaranótt þess 2. Á mönnuðum stöðvum fór lágmarkshiti í -22,0 stig í Hjarðarlandi og í Stafholtsey sömu nótt.
Hæsti hiti mánaðarins mældist á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga aðfaranótt þess 18., 14,2 stig. Sömu nótt mældist hiti á mönnuðu stöðinni á sama stað 13,7 stig.