Veðrið um verslunarmannahelgina 2008
- byggt á spálíkani ECMWF, dags. 28. júlí 2008
Verslunarmannahelgin nálgast og spáin sem hér er birt gefur grófa mynd af veðrinu um helgina. Hafa ber í huga að spár helgarinnar verða nákvæmari þegar nær dregur. Spáin verður endurskoðuð aftur á morgun, 29. júlí.
Almennt veðurútlit:
Lægðasvæði verður suður- og suðaustur af landinu og því verður austan- og norðaustanátt ríkjandi. Búast má við strekkingsvindi á föstudaginn og dálítilli rigningu um landið austanvert og með suðurströndinni en að annars staðar verði skýjað að mestu og þurrt.
Á laugardag og fram á mánudag er útlit fyrir fremur hægan vind og bjartviðri um mestallt land, en þó má gera ráð fyrir að þokubakkar verði við norðaustur- og austurströndina.
Hlýtt verður í veðri, hiti um 13-22 stig, og líkur eru á að hlýjast verði vestantil á landinu.