Fréttir
Við Markarfljót
Haustlitir við Markarfljót 28. september 2011.
1 2
fyrri

Tíðarfar í september 2011

Stutt yfirlit

3.10.2011

Mánuðurinn var hlýr hér á landi. Hiti var vel yfir meðallagi í öllum landshlutum. Hlýjast að tiltölu varð suðvestanlands. Hitavik voru minnst á Vestfjörðum. Mjög úrkomusamt var suðaustanlands en annars var frekar þurrt langt fram eftir mánuðinum. Mikið rigndi á Suður- og Vesturlandi síðustu viku mánaðarins.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 9,4 stig og er það 2,1 stigi yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri var meðalhitinn 7,9 stig. Er það 1,5 stigum ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 9,1 stig og 9,3 á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Sjá má meðalhita og vik á fleiri stöðvum í töflu. Þar má einnig sjá hvar í röð mánaðarmeðalhita september lenti.

 

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 9,4 2,1 14 141
Stykkishólmur 8,3 1,6 33 166
Bolungarvík 7,4 1,2 41 114
Akureyri 7,9 1,5 45 130
Egilsstaðir 7,8 1,7 17 56
Dalatangi 8,0 1,4 21 73
Teigarhorn 8,3 1,4
Höfn í Hornafirði 9,1 1,4
Kirkjubæjarklaustur 9,0 2,0
Hæll 8,6 1,8 20 131
Stórhöfði 9,3 1,9 13 135
Hveravellir  4,2 1,8 12 47

Hæsti meðalhiti mánaðarins mældist í Surtsey og á Garðskagavita, 10,1 stig, en lægstur var meðalhitinn á Brúarjökli 1,5 stig.

Hæsti hiti í mánuðinum mældist í Skaftafelli þ.30, 19,6 stig. Það er mesti hiti sem mælst hefur þennan dag í september. Hæstur hiti á mannaðri veðurstöð mældist 18,9 stig á Hæl í Gnúpverjahreppi þann 3. Lægstur hiti í mánuðinum mældist -8,1 stig á Brúarjökli, bæði þann 10. og 14. Lægstur hiti í byggð mældist á Þingvöllum þann 14. -7,8 stig. Lægstur hiti á mannaðri veðurstöð mældist -6,5 stig á Torfum í Eyjafirði þann 10.

Úrkoma

Mjög úrkomusamt var um suðaustanvert landið. Fremur þurrt var annars staðar langt fram eftir mánuðinum, sérstaklega vestanlands. Þar rigndi hins vegar mikið síðustu dagana þannig að úrkoma fór upp í ríflegt meðallag.

Í Reykjavík mældist úrkoman 72,2 mm og er það um 9 prósentum umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 64,9 mm og er það 67 prósent umfram meðallag. Á Höfn í Hornafirði mældust 260,2 mm í mánuðinum og er það 2,6-föld meðalúrkoma þar um slóðir.

Sólskinsstundir

Óvenju sólríkt var í Reykjavík. Sólskinsstundir mældust 168,4 í Reykjavík. Þetta er 43 stundum umfram meðaltal sepembermánaðar og hafa sólskinsstundir í september aðeins mælst fleiri fjórum sinnum, síðast 2005. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 95,8 og er það 10 stundum meira en í meðalári.

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði var 0,1 m/s undir meðallagi áranna 1995 til 2010. Loftþýstingur í Reykjavík var 10,5 hPa undir meðallagi. Þetta er lægsti mánaðarmeðalþrýstingur sem mælst hefur í september frá því að samfelldar mælingar hófust 1822.

Sumarið (júní til september)

Sumarið var hlýtt suðvestanlands. Meðalhiti í Reykjavík var 1,2 stigum ofan meðallags og er þetta sumar í 17. sæti frá upphafi mælinga hvað hlýindi varðar. Þetta er 20. sumarið í röð sem hiti er yfir meðallagi í Reykjavík. Um norðvestanvert landið var hiti 0,7 til 0,8 stigum ofan meðallags en kólnaði að tiltölu austur eftir Norðurlandi, munar þar mest um óvenjukaldan júnímánuð. Á Akureyri var hiti aðeins 0,1 stigi ofan meðallags, lítillega kaldara var sumrið 2005. Hiti var einnig 0,1 stigi ofan meðallags á Dalatanga, en 0,4 stigum undir því á Egilsstöðum. Sama vik var á Hallormsstað.

Úrkoma í Reykjavík var aðeins 68 prósent meðalúrkomu og er þetta þar með þurrasta sumar síðan 1985. Á Akureyri var úrkoman 87 prósent meðalúrkomu. Þar var úrkomusamt í júní og september en sérlega þurrt í júlí.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 836,5 en það er 224 stundum umfram meðallag. Segja má að sólar hafi notið meir en mánuði lengur þetta sumar heldur en venjulegt er enda hefur annað eins sólskinssumar ekki komið síðan 1929. Sumurin 1927 og 1928 voru einnig ívið sólríkari en nú. Á Akureyri voru sólskinsstundirnar í sumar 10 færri en í meðalári.

Fyrstu 9 mánuðir ársins

Fyrstu 9 mánuðir ársins hafa verið hlýir á landinu. Meðalhiti í Reykjavík er 1,2 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, 1,1 ofan við í Stykkishólmi og á Akureyri 0,9 stigum yfir sama viðmiði.

Úrkoma það sem af er ári er 12 til 13 prósentum ofan meðallags bæði í Reykjavík og á Akureyri.

skúraflókar speglast í haffletinum

Skúraflókar yfir Snæfellsnesi, séð frá Flatey á Breiðafirði. Ljósmynd: Þórður Arason, 20. sept. 2011.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica