Veðursjá tekin í notkun á Austurlandi
Veðursjáin við Teigsbjarg á Fljótsdalsheiði
Í tilefni af uppsetningu veðursjár á Austurlandi fyrr á árinu býður Veðurstofa Íslands til vígslu þar sem veðursjáin verður tekin formlega í notkun.
Athöfnin fer fram við veðursjána þar sem hún er staðsett við Teigsbjarg á Fljótsdalsheiði, nánar tiltekið á Miðfelli. Þar mun Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, flytja ávarp og gestum gefst kostur á að skoða mannvirki og búnað. Sérfræðingar Veðurstofunnar munu svara spurningum og sýna hluta þeirra afurða sem veðursjáin getur skilað.
Að lokinni athöfn á Miðfelli verður boðið til hádegisverðar á Skriðuklaustri og gerð stutt grein fyrir byggingarsögu veðursjárinnar í máli og myndum. Athöfnin fer fram miðvikudaginn 12. september kl. 11 og tekur um eina klukkustund. Dagskrá á Skriðuklaustri lýkur um kl. 14.
Gögn frá veðursjánni birtast nú þegar á veðursjársíðum vefsins og er þar sérstakur flipi fyrir Austurland. Eldri veðursjá er staðsett við Keflavíkurflugvöll og um hana má lesa í fróðleiksgrein frá 2010. Einnig má lesa leiðbeiningar með kortunum þar sem gögnin frá veðursjánum eru sett fram.
Hagnýtt er að sjá hvar rignir hverju sinni en að auki veita veðursjár mikilvægar upplýsingar þegar eldgos verða, t.d. varðandi hæð gosmakkar og öskudreifingu, og þá skiptir nálægð mælitækisins við gosstöðvarnar máli.
Af Teigsbjargi er víðsýnt. Myndin er samsett. Ljósmyndir: Richard Yeo, 24. apríl 2012.