Flóð í rénun
Viðvörun vegna vatnavár - uppfærsla
Klukkan 07:30 í dag, 27. febrúar, var hámarksrennsli Ölfusár við Selfoss um 1.300 rúmmetrar á sekúndu eins og spáð hafði verið. Síðasta sólahringinn mældist úrkoma yfir 17 mm á vatnasviði Hvítár og Ölfusár.
Rennsli á efra vatnasviði Hvítár (við Fremstaver) lækkar hratt. Klukkan tvö í dag var rennsli við Fremstaver um 264 rúmmetrar á sekúndu, um 50 prósent minna en í gær. Aðrir mælar á vatnasviði Hvítár og Ölfusár sýna að vatnshæð fer ört lækkandi.
Þrátt fyrir að ekki sé spáð mikilli úrkomu á svæðinu næstu daga mun það taka flóðið einn til tvo daga að sjatna.