Fréttir
Botnssúlur 26. apríl 2013.

Tíðarfar í apríl 2013

Stutt yfirlit

30.4.2013

  

Aprílmánuður var kaldur á landinu. Kaldast var inn til landsins á norðaustan- og austanverðu landinu. Fyrstu fjórir dagarnir voru hlýir en síðan ríkti kuldatíð. Snjór var til ama víða norðan- og austanlands og norðantil á Vestfjörðum. Úrkoma var víðast hvar innan við meðallag. Sólskinsstundir voru óvenjumargar suðvestanlands.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 1,9 stig og er það 1,0 stigi undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 2,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu aprílmánaða. Svona kalt hefur ekki verið í apríl í Reykjavík síðan árið 2000. Á Akureyri var meðalhitinn -0,4 stig sem er 2 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 3,8 stigum undir meðallagi síðustu 10 aprílmánaða. Apríl hefur ekki verið jafnkaldur á Akureyri síðan 1990. Meðalhiti á Höfn í Hornafirði var 1,9 stig Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

Meðalhiti í apríl 2013 ásamt viki frá meðallaginu 1961 til 1990 og röð frá þeim hlýjasta talið. 

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 1,9 -1,0 101 143
Stykkishólmur 1,0 -0,7 138 168
Bolungarvík -0,8 -1,2 92 116
Akureyri -0,4 -2,0 105 132
Egilsstaðir -1,0 -2,1 55 58
Dalatangi 0,3 -1,1 61 74
Teigarhorn 1,0 -1,3 106 141
Höfn í Hornaf. 1,9
Kirkjubæjarklaustur 1,9 -1,3 78 88
Stórhöfði 2,4 -1,0 107 136
Hveravellir  -4,5 -1,2 42 47
Árnes 1,0 -1,1 97 [133]


Hæstur var meðalhiti mánaðarins í Surtsey, 3,4 stig, en lægstur á Brúarjökli, -7,8 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -5,5 stig.

 Hæsti hiti mánaðarins mældist á Kollaleiru þann 27., 12,7 stig. Á mannaðri stöð mældist hiti hæstur í Stafholtsey þann 1., 11,0 stig. Lægsti hiti mánaðarins mældist -23,0 stig í Svartárkoti þann 12. Lægsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist -20,5 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 12. Sá 12. var mjög kaldur og hæsti hiti sem mældist á landinu þann dag var 1,9 stig í Önundarhorni undir Eyjafjöllum.  

Þrjú dægurlágmarksmet voru sett í mánuðinum. Þ.12. mældist frostið í Svartárkoti -23,0 stig og er það mesta sem vitað er um í byggð þann mánaðardag. Mesta frost sem vitað er um á landinu 12. apríl mældist í Sandbúðum 1975, -24,1 stig. Þann 29. mældist frostið á Brúarjökli -21,1 stig og þann 30. -22,7 stig. Aldrei áður hefur mælst jafnmikið eða meira frost á landinu þessa mánaðardaga.

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 41,8 mm og er það um 70 prósent meðalúrkomu í apríl. Á Akureyri mældist úrkoman 31,7 mm en það er um 8 prósent umfram meðalúrkomu. Í Stykkishólmi mældist úrkoman aðeins 15,3 mm sem er tæpur þriðjungur meðalúrkomu þar. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 37,2 mm en 90,2 mm á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.

Úrkomudagar á þessum stöðvum voru 3 til 6 færri en í meðalári.  

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 229,1 og er það 89 stundum umfram meðallag. Sólskinsstundir hafa aðeins einu sinni mælst fleiri í Reykjavík í apríl. Það var árið 2000 en þá mældust sólskinsstundirnar 242,3. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 126,8 og er það í rétt tæpu meðallagi.  

Snjólag

Snjólétt var á landinu sunnan- og vestanverðu en töluverður snjór norðaustanlands. Alhvítir dagar voru aðeins tveir í Reykjavík. Það er í tæpu meðallagi. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir aðeins 3 í mánuðinum og er það 8 dögum undir meðallagi. Hins vegar var þar aðeins einn alauður dagur og meðalsnjólag því 53 prósent. Svo hátt hefur meðalsnjólagið ekki verið í apríl á Akureyri síðan árið 2001.  

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði var um það bil 0,3 m/s undir meðallagi. Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1008,9 hPa og er það 1,6 hPa undir meðallagi. Hæsti þrýstingur mánaðarins mældist á Akureyri þann 6., 1036,4 hPa.  Lægstur mældist þrýstingurinn í Grindavík þann 22., 966,9 hPa.

 

Við Þingvallavatn


Veðurblíðu notið við Þingvallavatn 21. apríl 2013. Ljósmynd: Ólafur Freyr Gíslason.

Skjöl fyrir apríl

Skoða má textaskjal, meðalhiti á sjálfvirkum stöðvum í apríl 2013.

Þessa grein, Tíðarfar í apríl 2013, má einnig lesa sem pdf-skjal (0,2 Mb)

Hiti fyrstu fjóra mánuði ársins

Þar sem apríl var kaldur hefur hitinn á landinu það sem af er ársins látið undan síga í samkeppni um háan hita. Fyrstu fjórir mánuðir ársins hafa þó að meðaltali verið svo hlýir í Reykjavík að það nægir í 11. sæti á hlýindalista tímabilsins 1871 til 2013. Meðalhitinn var 2,4 stig og er það 1,7 stigum ofan meðaltals sömu mánaða 1961 til 1990, en 0,2 undir meðaltali áranna 2001 til 2010.

Á Akureyri er meðalhitinn fyrstu fjóra mánuði ársins 0,4 stig, 1,3 stigi ofan meðaltalsins 1961 til 1990, en 0,1 stigi undir meðaltali áranna 2001 ti 2010. Tímabilið er það 25. hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga á Akureyri 1882.

 





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica