Tíðarfar í ágúst 2013
Stutt yfirlit
Tíð var lengst af óhagstæð um landið sunnan- og vestanvert með þrálátri úrkomu og þungbúnu veðri. Mun hagstæðara tíðarfar ríkti um landið norðan- og austanvert.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík mældist 10,1 stig. Það er 0,2 stigum neðan meðaltals áranna 1961 til 1990 en 1,6 stigum undir meðaltali síðustu 10 ára. Þetta er kaldasti ágústmánuður í Reykjavík síðan 1993 en þá var talsvert kaldara heldur en nú. Meðalhitinn á Akureyri var 10,6 stig og er 0,6 stigum ofan meðaltalsins 1961 til 1990 en 0,5 undir meðallagi síðustu 10 ára. Talsvert kaldara var á Akureyri í ágúst 2011 heldur en nú.
Langhlýjast að tiltölu var um landið austanvert. Hiti var 1,5 stigum ofan meðaltals áranna 1961 til 1990 á Dalatanga og 1,4 yfir því á Teigarhorni. Á báðum stöðunum var hiti nú 0,4 stigum ofan við meðaltal ágústmánaða síðustu tíu ára. Meðalhiti á Höfn í Hornafirði mældist 10,1 stig. Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | hiti | vik | röð | af |
Reykjavík | 10,1 | -0,2 | 91 | 143 |
Stykkishólmur | 9,9 | 0,3 | 68 | 168 |
Bolungarvík | 9,3 | 0,7 | 48 | 116 |
Akureyri | 10,6 | 0,6 | 43 til 44 | 132 |
Egilsstaðir | 10,3 | 0,7 | 23 | 59 |
Dalatangi | 9,8 | 1,5 | 12 | 75 |
Teigarhorn | 10,2 | 1,4 | 11 | 141 |
Höfn í Hornaf. | 10,1 | 0,0 | ||
Stórhöfði | 9,8 | 0,2 | 76 | 136 |
Hveravellir | 5,9 | -0,3 | 36 til 37 | 48 |
Árnes | 10,0 | -0,2 | 80 | 134 |
Byggð | 9,5 | 0,3 | 65 | 141 |
Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Skarðsfjöruvita og í Neskaupstað, 10,7 stig. Lægstur var hann á Brúarjökli, 3,0 stig. Á láglendi var mánaðarmeðalhitinn lægstur 7,6 stig í Möðrudal.
Hæsti hiti mánaðarins mældist á Þingvöllum þann 2., 22,0 stig. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 21,2 stig í Miðfjarðarnesi þann 22. Hiti komst í 20 stig aðeins sjö daga í mánuðinum.
Lægstur mældist hitinn -3,5 stig þann 31. á Þverfjalli. Í byggð mældist hitinn lægstur -2,4 stig á Brúsastöðum þann 1. Lágmarkið á Brúsastöðum er það lægsta sem mælst hefur í byggð þann 1. ágúst. Lágmarkshitinn á Gagnheiði þann 5. var -1,6 stig og er sá lægsti sem mælst hefur þann dag mánaðarins.
Úrkoma
Úrkoman í Reykjavík mældist 86,3 mm og er það tæplega 40% umfram meðalúrkomu og það mesta í ágúst síðan 2007. Alveg þurrt var fyrstu 7 daga mánaðarins. Í Stykkishólmi var úrkoman óvenjumikil eða 111,4 mm. Þetta er meir en tvöföld meðalúrkoma og sú mesta í ágúst síðan 1976. Mestu munaði um úrkomuna sem mæld var þann 30., 55,2 mm. Þetta er mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur í ágúst í Stykkishólmi frá upphafi úrkomumælinga þar 1856.
Úrkoman á Akureyri mældist 18,8 mm og er það ríflega helmingur meðalúrkomu. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 84,8 mm.
Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meiri voru 16 í Reykjavík, fjórum dögum fleiri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 7 og er það í meðallagi.
Sólskin
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 135,3 og er það 19 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en aftur á móti 54 stundum undir meðallagi síðustu 10 ágústmánaða. Svo fáar sólskinsstundir hafa ekki mælst í Reykjavík í ágúst síðan árið 2000 en þá voru þær talsvert færri en nú. Einnig var sólarlítið á Akureyri. Þar mældust sólskinsstundirnar 99,9 eða 36 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Enn færri stundir mældust á Akureyri í ágúst 2009.
Vindhraði og loftþrýstingur
Vindhraði á landinu var um það bil 0,5 m/s yfir meðallagi og sá mesti síðan í ágúst 2005 en þá var hann lítillega hærri. Loftþrýstingur í Reykjavík var 5,8 hPa undir meðallagi, sá lægsti í ágúst síðan 1992. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1021,4 hPa í Bolungarvík þann 1. en lægstur mældist hann 976,5 hPa á Rauðanúpi þann 30.
Sumarið (júní til ágúst)
Meðalhiti í Reykjavík mældist 10,3 stig og er það 0,4 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, en 1,2 stigum undir meðaltali síðustu 10 ára. Hitinn er í 61. til 62. sæti meðalhita í Reykjavík. Upphaf mælinga er talið 1871. Á Akureyri er meðalhiti mánaðanna þriggja 11,1 stig og er það 1,2 stigum ofan við meðallagið 1961 til 1990 og 0,3 stigum ofan við meðallag síðustu 10 ára. Þetta er 19. hlýjasta sumarið á Akureyri frá upphafi samfelldra mælinga 1881. Á Egilsstöðum var meðalhiti mánaðanna þriggja 10,9 stig og er það 1,4 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 og 0,8 stigum ofan meðallags síðustu 10 ára. Þetta er 6. hlýjasta sumar á Egilsstöðum frá upphafi samfelldra mælinga þar 1954.
Úrkoma í Reykjavík mánuðina júní til ágúst mældist 37% meiri en í meðalári. Hún var nánast jafnmikil í þessum mánuðum árið 2003 en það þarf að fara aftur til 1983 til að finna meiri úrkomu en nú. Á Akureyri mældist úrkoma mánaðanna þriggja um 61% af meðalúrkomu. Þurrara var á Akureyri í fyrra.
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 421 í mánuðunum þremur. Það er 66 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 180 stundum minna en að meðaltali 2003 til 2012. Sýnir þetta vel hversu óvenjuleg síðustu tíu ár voru í langtímasamhengi. Þarf að fara aftur til sumarsins 1989 til að finna færri sólskinsstundir heldur en nú í mánuðunum júní til ágúst.
Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 461,5 í mánuðunum júlí til ágúst. Það er tíu stundum undir meðallaginu 1961 til 1990 en 54 stundum færri en meðaltal áranna 2003 til 2012. Sólskinsstundir sumarsins 2003 voru færri á Akureyri heldur en nú.
Fyrstu átta mánuðir ársins (janúar til ágúst)
Í heild hafa mánuðirnir átta verið hlýir á landinu, í Reykjavík 0,9 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en aftur á móti 0,2 stigum undir meðaltali síðustu 10 ára. Árið er í 27. til 28. sæti hlýindaára. Miðað er við mælingar frá 1871 til okkar daga.
Á Akureyri er meðalhitinn það sem af er ári 5,1 stig og er það 1,1 stigi ofan meðaltalsins 1961 til 1990 og í meðallagi síðustu tíu ára. Árið er í 18. sæti hlýrra ára á Akureyri frá 1882.
Skjöl fyrir ágústmánuð
Þessa grein, Tíðarfar í ágúst 2013, má einnig lesa sem pdf-skjal (0,3 Mb)
Meðalhiti á sjálfvirkum stöðvum í ágúst 2013.