Fjölmenn ráðstefna fagaðila um snjóflóðamál
Í tengslum við árlegan samráðsfund snjóflóðavaktar og snjóathugunarmanna hélt Veðurstofan ráðstefnu og samráðsfund þar sem öðrum fagaðilum var boðið að vera með. Er það í fyrsta sinn sem slík ráðstefna er haldin hér á landi. Góð þátttaka var á ráðstefnunni en þar voru á milli 80 og 90 manns sem auk Veðurstofunnar komu frá Almannavörnum, Landsbjörgu, skíðasvæðum landsins, orkufyrirtækjum, Vegagerðinni, ýmsum hagsmunasamtökum og fjölmörgum ferða- og fjallaleiðsögumanna fyrirtækjum.
Ferðamennska um fjalllendi að vetrarlagi hefur aukist á Íslandi síðustu árin. Ný ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfa sig í fjalla- og þyrluskíðun eru að skjóta upp kollinum og einnig fer erlendum hópum, sem koma með leiðsögumenn með sér, fjölgandi.
Aukningin í skipulögðum fjallaskíðaferðum virðist vera einna mest á Tröllaskaga, sem er orðinn þekkt „vörumerki“ í heiminum á þessu sviði, og einnig á norðanverðum Vestfjörðum. En um allt land hefur ásókn almennings í fjöll að vetrarlagi aukist, hvort sem um er að ræða göngur, skíðaferðir, klifur eða vélsleðaferðir.
Þessu samfara hefur tilfellum snjóflóða af mannavöldum fjölgað og eftirspurn eftir snjóflóðaspám og upplýsingum hefur vaxið. Allir sem voru á ráðstefnunni eiga það sameiginlegt að þurfa að leggja mat á snjóflóðahættu og taka ákvarðanir út frá því. Ýmis mál voru rædd en áherslan var mest á snjóflóðaspá Veðurstofunnar og leiðir til þess að miðla upplýsingum, reynslu og þekkingu á milli fagaðila.
Mikill einhugur var í ráðstefnugestum um að miðla upplýsingum um snjóflóð og snjóalög sín á milli á sem bestan hátt, enda eru það hagsmunir allra og bætir öryggi.
Í vetur mun Veðurstofan halda áfram að birta snjóflóðaspá fyrir valin svæði og sú nýjung verður gerð að fréttasíða með upplýsingum um snjóflóð og snjóalög, gögn úr snjógryfjum, niðurstöðum stöðugleikaprófana verður í fyrsta sinn á vedur.is. Þar mun Veðurstofan miðla slíkum upplýsingum frá sínu starfsfólki víða um land en einnig birta upplýsingar sem berast frá öðrum aðilum, s.s. skíðasvæðum og fjallaleiðsögumönnum.