Tíðarfar í október 2013
Stutt yfirlit
Hiti á landinu í október var í meðallagi áranna 1961 til 1990, eða rétt undir því. Lítillega kaldara var á landinu í október í fyrra. Mánuðurinn var mjög þurr um landið suðvestanvert og er ekki vitað um jafnþurran eða þurrari október á þeim slóðum. Aftur á móti var úrkoma með meira móti um landið norðaustanvert. Vindar voru hægir og mánuðurinn var lengst af snjóléttur í byggð. Þó snjóaði nokkuð á fáeinum stöðum undir lok mánaðarins.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík var 4,2 stig, 0,2 stigum neðan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Talsvert kaldara var í október 2008. Mánuðurinn var sá þriðji í röð mánaða undir meðallagi. Hafa þrír mánuðir undir meðallagi ekki komið í röð í Reykjavík síðan 1999. Hafa verður í huga að vikin nú eru mjög lítil. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 4,1 stig og er það 0,3 stigum yfir meðallagi. Á Akureyri mældist meðalhiti 2,7 stig og er það 0,3 stigum neðan meðallags 1961 til 1990 en 0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 4,7 stig og -1,2 stig á Hveravöllum, það er í meðallagi.
Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | hiti | vik | röð | af |
Reykjavík | 4,2 | -0,2 | 82 | 143 |
Stykkishólmur | 4,1 | 0,3 | 72 | 168 |
Bolungarvík | 3,5 | 0,0 | 57 til 58 | 116 |
Akureyri | 2,7 | -0,3 | 78 | 132 |
Egilsstaðir | 3,0 | -0,1 | 36 til 37 | 59 |
Dalatangi | 4,4 | -0,1 | 49 | 75 |
Teigarhorn | 4,3 | -0,2 | 75 | 141 |
Höfn í Hornaf. | 4,7 | |||
Stórhöfði | 4,8 | -0,3 | 80 | 136 |
Hveravellir | -1,2 | 0,0 | 29 til 30 | 48 |
Árnes | 3,1 | -0,4 | 76 | 134 |
Byggð | 3,2 | -0,3 |
Hæstur var meðalhiti mánaðarins í Surtsey, 5,9 stig, og 5,8 á Garðskagavita. Lægstur var meðalhitinn í Sandbúðum, -2,7. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -0,1 stig.
Hæsti hiti mánaðarins mældist á Kollaleiru í Reyðarfirði þann 10., 20,3 stig. Á mannaðri stöð mældist hitinn hæstur 18,4 stig þann 11. á Skjaldþingsstöðum.
Lægsti hiti mánaðarins mældist -15,4 stig á Brúarjökli þann 31. Í byggð mældist lægsti hiti -9,7 stig á Torfum í Eyjafirði þann 20. Lægsti hiti á mannaðri stöð mældist -7,5 stig í Stafholtsey þann 20.
Hitinn á Kollaleiru þann 10. er nýtt dægurmet (hæsti hámarkshiti 10. október). Eldra met var frá Teigarhorni árið 1937, 19,2 stig.
Úrkoma
Mjög þurrt var víða um landið sunnan- og vestanvert. Úrkoman mældist aðeins 18,9 mm í Reykjavík. Það er aðeins um 22% meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Svo lítil úrkoma hefur aldrei mælst í Reykjavík í október. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 13,4 mm. Það er aðeins 17% meðalúrkomu þar og hefur úrkoma aðeins tvisvar mælst minni í október en mælingar ná nær samfellt aftur til 1856. Úrkoman í október 1865 mældist 13,1 mm og 10,4 í október 1968. Á Akureyri mældist úrkoman 113,8 mm. Það er um tvöföld meðalúrkoma en mældist þó enn meiri í október fyrir tveimur árum. Úrkoma á Höfn í Hornafirði mældist 152,3 mm.
Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meiri voru aðeins 6 í Reykjavík, níu dögum færri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 13, tveimur fleiri en í meðalári.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskin í Reykjavík mældist 101,6 stundir, 18 stundum fleiri en í meðalári. Sólskinsstundir voru enn fleiri í Reykjavík í október í fyrra. Sólskinsstundir á Akureyri mældust 46,6 er það um 5 stundum minna en í meðaloktóber.
Snjólag
Alhvítt var einn dag í Reykjavík og er það í meðallagi í október. Snjódýptin mældist þá 13 cm og hefur aldrei mælst meiri í október. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 2 og er það 3 dögum færra en að meðaltali í október 1971 til 2000.
Vindhraði og loftþrýstingur
Vindhraði á landinu var um 1,3 m/s undir meðallagi og var mánuðurinn meðal hægviðrasömustu októbermánaða. Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1005,3 hPa og er það 3,0 hPa yfir meðallagi. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1030,5 hPa í Surtsey þann 9. en lægstur mældist hann 974,7 hPa á Kirkjubæjarklaustri þann 27.
Fyrstu tíu mánuðir ársins (janúar til október)
Meðalhiti fyrstu tíu mánaða ársins er í Reykjavík 0,7 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en aftur á móti 0,6 stigum undir meðaltali síðustu 10 ára. Fyrstu 10 mánuðir ársins hafa ekki verið jafnkaldir í Reykjavík síðan 2002. Árið er í 31. sæti hlýindaára. Miðað er við mælingar frá 1871 til okkar daga.
Á Akureyri er meðalhitinn það sem af er ári 5,0 stig og er það 0,9 stigum ofan meðaltalsins 1961 til 1990 og 0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Fyrstu 10 mánuðir ársins voru lítillega kaldari árið 2005 heldur en nú á Akureyri. Árið er í 29. sæti hlýrra ára á Akureyri frá 1882.
Úrkoma er um 6% umfram meðallag það sem af er ári í Reykjavík, en um 15% umfram það á Akureyri.
Skjöl fyrir októbermánuð
Þessa grein, Tíðarfar í október 2013, má einnig lesa sem pdf-skjal (0,3 Mb)
Meðalhiti á sjálfvirkum stöðvum í október 2013.