Alþjóðleg ráðstefna 2014 um aðlögun að breytingum á veðurfari
Þriðja norræna alþjóðlega ráðstefnan um veðurfarsbreytingar og aðlögun að þeim
Veðurstofan vekur athygli á þriðju norrænu alþjóðlegu ráðstefnunni um veðurfarsbreytingar og aðlögun að þeim, sem haldin verður næsta sumar. Heiti ráðstefnunnar er:
The 3rd Nordic International Conference on Climate Change Adaptation “Adapting to Change: From Research to Decision-making."
Ráðstefnan verður haldin í Kaupmannahöfn 25. - 27. ágúst 2014. Útdrætti erinda skal skilað inn fyrir miðjan janúar og skráning hefst um miðjan febrúar. Allar nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu ráðstefnunnar og í meðfylgjandi kynningarskjali.
Umræðuefni
Það er þekkt og almennt viðurkennt að áhrif veðurfarsbreytinga á samfélagið geta skipt miklu máli, einkum það sem gerist sjaldan en hefur mikil áhrif, svo sem stormar og flóð. Þó er sjaldan litið til þessara þátta í ákvarðanatöku. Því veldur meðal annars lítill skilningur á óvissuþáttunum. Hvernig er best að heimfæra veðurfarsbreytingar upp á samfélagið og gera úr þeim hagnýtar og þrepaskiptar upplýsingar fyrir hin ýmsu svið þjóðfélagsins? Umræðuefni sem falla undir þetta eru t.d.:
- Áhættufælni og félagsleg forgangsröðun sem drifkraftur aðlögunar
- Kostnaður við aðgerðaleysi
- Áhættustýring sem tæki til ákvarðanatöku
- Öfgar í veðri – verstu atburðir
- Sviðsmyndir mestu losunar
- Stjórnun samhliða atburða
Tímabært er að skilgreina og innleiða ferli sem miða að því að hámarka aðlögun að breytilegu veðurfari á sveigjanlegan og sjálfbæran hátt.
Síðasta ráðstefna af þessum toga var haldin í Helsinki árið 2012 (sjá eldri frétt). Tengiliðir á Veðurstofunni eru þau Sigrún Karlsdóttir náttúruvárstjóri og Halldór Björnsson, verkefnisstjóri loftslagsrannsókna.