Vedráttu-töflur Sveins Pálssonar frá 1792
Veðurlýsingar frá 18. öld til sölu
Áhugasamir geta keypt veðurlýsingar frá 18. öld hjá Veðurstofu Íslands.
Það var í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofunnar árið 2010 að stofnunin gaf út Vedráttu-töflur Sveins Pálssonar (1762-1840) í 300 tölusettum eintökum, með töflum og veðurlýsingum frá árinu 1792. Handritið var myndað og gefið út með prentaðri uppskrift til þess að auðvelda lesturinn.
Handrit Sveins er líklega elsta leiðbeiningarrit á íslensku um veðurathuganir, bæði hvernig þær skuli gerðar og hvernig best sé að draga þær saman í yfirlit. Handritið er varðveitt í handritadeild Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns (Lbs 306 4to).
Í útgefnu bókinni er handrit Sveins á hægri síðu í ritinu og sami texti prentaður á þeirri vinstri.
Trausti Jónsson veðurfræðingur hafði frumkvæði að útgáfunni og var umsjónarmaður hennar. Uppskriftin var unnin ásamt Björk Ingimundardóttur, skjalaverði á Þjóðskjalasafni Íslands en Oddur Sigurðsson jarðfræðingur ritaði æviágrip Sveins, sjá umfjöllun.
Veðráttu-töflurnar eru til sölu í móttöku Veðurstofu Íslands, Bústaðavegi 7, eintakið á 2.500 kr.