Jarðskjálftar í nóvember 2013
Í nóvember mældust tæplega 1200 jarðskjálftar með SIL jarðskjálftamælakerfi Veðurstofu Íslands. Helsti viðburður var mikil jarðskjálftavirkni við Vífilsfell í þriðju viku mánaðar. Hátt í 400 skjálftar mældust, stærsti 2,9 að stærð.
Reykjanesskagi
Talsverð virkni mældist á Reykjanesskaga. Langflestir, eða um 380 jarðskjálftar, urðu í tveimur hrinum við Vífilsfell milli 17. og 20. nóvember og aftur að kvöldi 24. nóvember. Hrinurnar voru staðsettar á norður-suður sniðgengissprungu og stærstu skjálftarnir mældust 18. nóvember, annar 2,9 að stærð kl. 10:17 og hinn 2,8 að stærð kl. 13:29. Auk þess áttu rúmlega 30 smáskjálftar upptök við Krýsuvík, um 10 í nágrenni Fagradalsfjalls og þrír við Reykjanestá. Enginn náði tveimur stigum og voru þeir allir staðsettir á þekktum sprungum og jarðhitasvæðum. Tæplega 25 skjálftar mældust á Reykjaneshrygg. Sá stærsti var 3,2 að stærð þann 4. nóvember kl. 04:03 um fimm kílómetrum suðvestan Geirfugladrangs.
Suðurland
Á Hengilssvæðinu urðu rúmlega 120 jarðskjálftar við Húsmúla, stærstu 2,1 og 2,2 stig. Smáhrina varð í Hveradölum þann 22. nóvember. Alls var um tylft smáskjálfta staðsett þar, allir innan við 1,5 stig. Norðan Skeggja í Hengli mældist 2,4 stiga jarðskjálfti og nokkrir smáskjálftar þann 24. nóvember um kl. 13. Auk þess áttu nokkrir smáskjálftar upptök við Hrómundartind.
Fremur rólegt var á Suðurlandsundirlendinu. Tæplega 30 skjálftar mældust í Þrengslum og Ölfusi, þar af flestir á Krosssprungu sunnan Hveragerðis. Allir voru þeir minni en 1,5 stig. Um 25 smáskjálftar voru staðsettir á þekktum sprungum milli Ingólfsfjalls og Selsunds.
Norðurland
Um 150 jarðskjálftar mældust í Tjörnesbrotabeltinu norður af landi. Flestir áttu upptök í Öxarfirði eða um 60. Stærsti þar var 1,9 stig. Yfir 30 skjálftar urðu í Grímseyjarbeltinu, stærsti 2,2 stig. Á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu mældust yfir 50 skjálftar, stærsti 2,1. Flestir eða hátt í 40 mældust við Flatey á Skjálfanda. Dagana 23. - 24. nóvember varð smáhrina suðaustan eyjarinnar með yfir 20 skjálftum. Sjö skjálftar mældust norður á Kolbeinseyjarhrygg, stærsti 3,0 að stærð.
Um 20 smáskjálftar, um og innan við einn að stærð, áttu upptök á Þeistareykjasvæðinu. Aðeins fimm smáskjálftar, innan við einn að stærð, mældust á Kröflusvæðinu.
Hálendi
Frekar rólegt var í Vatnajökli, við Dyngjufjöll og við Herðubreið eða um 160 skjálftar samtals. Allt voru þetta skjálftar undir þremur að stærð. Í Vatnajökli var virknin aðallega á Lokahrygg, norðaustan í Bárðarbungu, við Esjufjöll og í Kverkfjöllum. Einnig mældust nokkrir litlir skjálftar við Þórðarhyrnu. Að morgni 20. nóvember kl. 03:40 - 06:10 mældist órói með 0,5 - 2 Hz tíðni undir suðvestanverðum Vatnajökli með mesta útslag á skjálftamæli á Grímsfjalli. Hugsanlega tengist þessi óróahrina jarðhitavirkni.
Nokkrir skjálftar mældust norðan við Dyngjufjöll ytri, en meginvirknin norðan Vatnajökuls var austan við Öskjuvatn. Einnig var smá hrina norðan Tungnafellsjökuls.
Mýrdalsjökull
Tæplega 100 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli í mánuðinum. Rúmlega 40 voru staðsettir undir Kötluöskjunni. Flestir urðu við austanverðan öskjubarminn, nálægt sigkötlum 10 og 11, í tveimur skjálftahrinum þann 20. nóvember. Sú fyrri varð laust fyrir klukkan níu um morguninn en sú síðari um kvöldmatarleytið. Skjálftarnir voru á stærðarbilinu 0,8 - 1,4 og á um 25 kílómetra dýpi. Líklega hefur þessi virkni tengst kvikuhreyfingum en sambærileg virkni mældist á svipuðum slóðum í september í fyrra. Stærsti skjálftinn í jöklinum var tæp tvö stig og var hann í sunnanverðri öskjunni. Á þriðja tug skjálfta mældust undir vestanverðum jöklinum, allir um og innan við eitt stig. Tæplega 20 smáskjálftar mældust við Hafursárjökul í sunnanverðum Mýrdalsjökli. Aðrir skjálftar dreifðust um vestan- og sunnanverðan jökulinn.
Árla morguns 17. nóvember mældust fjórir skjálftar við Hjörleifshöfða, sá stærsti rúm tvö stig. Skjálftarnir voru á um og yfir 20 kílómetra dýpi sem er við neðri mörk stökku skorpunnar. Af og til sjást djúpir skjálftar á þessum slóðum. Síðast varð hrina þar þann 7. desember 2007. Nokkrir smáskjálftar mældust undir Eyjafjallajökli og 14 á Torfajökulssvæðinu, allir um og innan við einn að stærð. Einn lítill skjálfti varð undir suðvestanverðum Langjökli, nokkrir í nágrenni Skjaldbreiðar og þrír í Hofsjökli.