Tíðarfar í maí 2014
Stutt yfirlit
Tíðarfar í maí var hagstætt á landinu og vorgróður tók vel við sér. Hiti var vel ofan við meðallag víðast hvar. Úrkoma var yfir meðallagi á Suður- og Austurlandi en í því eða undir víða um norðvestan- og norðanvert landið.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík var 8,1 stig og er það 1,8 stigi ofan við meðallag áranna 1961 til 1990 en 1,3 stigi yfir meðallagi síðustu 10 maímánaða. Á Akureyri var meðalhitinn 7,5 stig, 2 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 en 1,7 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára.
Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | hiti |
vik 30 | röð | af | vik 10 |
Reykjavík | 8,2 | 1,9 | 13 | 144 | 1,3 |
Stykkishólmur | 7,2 | 2,3 | 9 | 169 | 1,5 |
Bolungarvík | 6,1 | 2,1 | 13 | 117 | 1,4 |
Akureyri | 7,5 | 2,0 | 19 | 133 | 1,7 |
Egilsstaðir | 5,8 | 1,0 | 25 | 60 | 0,7 |
Dalatangi | 4,2 | 0,9 | 29 | 76 | 0,1 |
Teigarhorn | 5,7 | 0,7 | 27 til 29 | 142 | 0,5 |
Höfn í Hornafirði | 7,2 | 0,9 | |||
Stórhöfði | 7,3 | 1,4 | 12 | 138 | 0,9 |
Hveravellir | 2,5 | 1,9 | 7 | 50 | 0,6 |
Árnes | 7,5 | 1,4 | 18 | 134 | 0,9 |
Meðalhiti í maí 2014, vik 1961-1990 (vik 30), vik 2004 til 2013 (vik 10). Röð: Talið frá hlýjasta maímánuði.
Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Garðskagavita, 8,4 stig, en lægstur á Gagnheiði, -1,1 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, 3,2 stig. Sé miðað við síðustu tíu ár var hitinn að tiltölu hæstur á Húsavík þar sem hann var 1,9 stigi yfir meðallagi. Lægstur að tiltölu var hann á Eyjabökkum, -0,4 stigum undir meðallagi áranna tíu.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 18,7 stig á Brúsastöðum í Vatnsdal þann 30. Á mannaðri stöð mældist hiti hæstur 17,0 stig á Akureyri þann 30. Lægsti hiti á landinu mældist á Brúarjökli, -16,0 stig þann 20. Í byggð varð hitinn lægstur -8,6 stig á Torfum í Eyjafirði þann 1. Á mannaðri stöð mældist hitinn lægstur á Grímsstöðum á Fjöllum þann 1., -4,8 stig.
Tvö ný landsdægurlágmarksmet voru sett í mánuðinum, bæði á Brúarjökli. Þann 20. mældist frostið þar -16,0 stig. Fyrra met var -13,2 stig sem mældist á Brú á Jökuldal 1979. Þann 22. mældist frostið á Brúarjökli -14,5 stig. Fyrra lágmark þess dags var -13,1 stig sem mældist á sama stað 2007 og einnig á Þeistareykjum 2006. Síðari daginn, þann 22., mældist frostið á Staðarhóli -7,4 stig. Það er mesta frost sem mælst hefur í byggð þann dag. Eldra lágmark, -6,8 stig, mældist í Árnesi 2007.
Úrkoma
Úrkoma var yfir meðallagi á Suður- og Austurlandi en í því eða undir víða um norðvestan- og norðanvert landið.
Í Reykjavík mældist úrkoman 46,7 mm og er það rétt yfir meðallagi maímánaðar. Á Akureyri mældist úrkoman 11,7 mm og er það um 60 prósent meðalúrkomu. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 32,1 mm og er það í rétt tæpu meðallagi. Í Bolungarvík mældist úrkoman 38,8 mm sem er um 80 prósent meðalúrkomu. Á Höfn í Hornafirði mældist hún 67,1 mm.
Úrkoma mældist 1 mm eða meiri 15 daga í Reykjavík. Það er fimm dögum fleiri en í meðalári. Á Akureyri voru þessir dagar sex, einum degi fleiri en í meðalári.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 189 og er það í meðallagi sé miðað við 1961 til 1990, en 53 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Sólskinsstundir mældust 151,2 á Akureyri og er það 23 stundum undir meðallagi.
Snjólag, vindhraði og loftþrýstingur
Alautt var allan mánuðinn, bæði í Reykjavík og á Akureyri.
Vindhraði á landinu var ríflega 0,5 m/s undir meðallagi og ríkjandi vindáttir nærri meðallagi. Lítið var um hvassviðri.
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1012,8 hPa og er það 0,4 hPa yfir meðallagi. Þetta er fyrsti mánuðurinn síðan í október með þrýstingi yfir meðallagi. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1029,2 hPa á Egilsstaðaflugvelli þann 1. og á Fonti þann 2. Þrýstingur varð lægstur í mánuðinum á Stórhöfða í Vestmannaeyjum þann 6., 984,6 hPa.
Vorið (apríl og maí)
Vorið var mjög hlýtt, meðalhiti í Reykjavík var 1,9 stigi yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og það 5. hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík 1871. Vorin 1974, 1941, 1960 og 1928 voru hlýrri en nú. Á Akureyri var hiti nú 2,0 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 og vorið þar með það sjöunda hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga 1881 og eins og í Reykjavík það hlýjasta frá 1974 að telja.
Úrkoma í Reykjavík var í meðallagi (2 prósent umfram það). Á Akureyri var fremur þurrt, úrkoman mældist tæplega 60 prósent meðalúrkomu apríl- og maímánaðar.
Fyrstu fimm mánuðir ársins 2014
Fyrstu fimm mánuðir ársins 2014 hafa verið óvenjuhlýir og hafa aðeins þrisvar verið hlýrri í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga, 1871. Það var 1964, 1929 og 2003. Á Akureyri hafa fyrstu fimm mánuðir ársins aðeins sex sinnum verið hlýrri (frá 1882 að telja). Það var 1964, 1929, 1974, 2003, 1972 og 2012.
Þótt úrkoma hafi verið vel undir meðallagi í apríl og maí á Akureyri var hún svo mikil fyrstu þrjá mánuðina að úrkoma hefur aðeins þrisvar verið meiri fyrstu fimm mánuði ársins á Akureyri (frá 1928 að telja). Það var 1989, 1990 og 1953.
Í Reykjavík var sérlega þurrt í janúar og febrúar og úrkoma var nærri meðallagi í apríl og maí. Aftur á móti var úrkoma langt yfir meðallagi í mars. Summa fyrstu fimm mánaðanna er um 15 prósent neðan meðallags áranna 1961 til 1990.
Meðalloftþrýstingur mánaðanna fimm hefur verið lægri aðeins fimm sinnum frá upphafi samfelldra mælinga 1823. Vegur þar þyngst hinn sérlega lági þrýsingur í janúar og febrúar.
Skjöl fyrir maímánuð
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í maí 2014.
Þessa grein má einnig sækja eða lesa sem Tíðarfar í maí 2014 (pdf 0,3 Mb).