Frekari upplýsingar um Bárðarbungu
12:59 Jarðskjálftavirknin sem hófst í Bárðarbungu hinn 16. ágúst heldur áfram.
GPS staðsetningamælingar gefa sterkar vísbendingar um kvikuhreyfingu. Um er að ræða jarðskjálftahreyfingar tengdar kvikuhreyfingu austur af Bárðarbunguöskjunni og við brún Dyngjujökuls skammt austur af Kistufelli.
Klukkan 02:37 aðfararnótt 18. ágúst varð jarðskjálfti, um 4 að stærð, við Kistufell. Það er sterkasti skjálftinn sem mælst hefur á svæðinu frá árinu 1996. Í ljósi endurmats jarðvísindamanna á atburðum síðustu daga hefur Veðurstofan ákveðið að hækka viðvörunarstig fyrir flugmálayfirvöld og er því Bárðarbunga merkt með appelsínugulu samkvæmt litakóða.
Engin merki eru um gos. Ekki er hægt að útiloka að þessi virkni geti leitt til sprengigoss sem þá myndi valda jökulhlaupi og losun ösku út í andrúmsloftið. Náið er fylgst með þróuninni.