Um Bárðarbungueldstöðina
Samantekt er væntanleg á ensku um allar eldstöðvar á Íslandi
Á Íslandi eru taldar um 30 megineldstöðvar eða eldstöðvakerfi. Eitt af þeim er Bárðarbunga sem er næsthæsta fjall Íslands, um 2000 m yfir sjávarmáli.
Eldfjallið er í norðvestanverðum Vatnajökli og því alveg hulið jökli. Það er svo stórt að menn áttuðu sig ekki á hinu rétta eðli þess fyrr en það sást á gervihnattamynd úr 800 km fjarlægð árið 1973 (sjá mynd hér neðst).
Í krúnu fjallsins er stórt jarðfall sem er kallað askja um 11 km á lengri veginn og í því er um 850 m þykkur jökulís. Gos sem tengjast eldstöðinni geta orðið hvarvetna í öskjunni eða í hlíðum fjallsins og einnig í sprungukerfi sem liggur gegn um eldstöðina til NA og SV jafnvel í 100 km fjarlægð. Ekki fer á milli mála að þar geta orðið geysileg eldgos og sprengigos og þá er hætta á að mikill ís bráðni og valdi jökulhlaupum. Ekki er ólíklegt að Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi (sjá LMÍ) hafi grafist í stórkostlegum jökulhlaupum á forsögulegum tíma. Stór jökulhlaup sem urðu í Kelduhverfi á 18. öld eru tengd jarðeldum í Bárðarbungu.
Seinustu sjö ár hefur virkni í Bárðarbungu aukist jafnt og þétt, sem og í sprungusveimnum norður af Bárðarbungu. Í kjölfar gossins í Grímsvötnum í maí 2011 datt virknin tímabundið niður en fór fljótlega að aukast aftur. Yfirstandandi jarðhræringar hófust undir Bárðarbungu 16. ágúst 2014.
Ítarlegt lesefni á ensku um Bárðarbungu
Vegna jarðhræringanna í norðvestanverðum Vatnajökli hefur Veðurstofan fengið leyfi til að birta kaflann Bárðarbunga System úr heildstæðri úttekt sem væntanleg er á ensku um allar eldstöðvar á Íslandi. Þessi úttekt, sem er vel á veg komin, er hluti af heildarhættumati vegna eldgosa á Íslandi sem samþykkt var fyrir réttum þremur árum, 26. ágúst 2011, að tillögu Svandísar Svavarsdóttur, þáverandi umhverfisráðherra.
Tillagan byggði á áætlun sem Veðurstofa Íslands vann ásamt Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Landgræðslu Ríkisins og Vegagerðinni fyrir umhverfisráðuneytið.