Alþjóðlegur dagur vatnsins er í dag
Í dag, 22. mars, er alþjóðlegur dagur vatnsins, en Sameinuðu þjóðirnar hafa staðið fyrir þessum degi síðastliðinn 25 ár. Markmiðið með þessum degi er að benda á mikilvægi vatns fyrir samfélög og allt líf jarðar. Þema ársins í ár er „Nature for Water“.
Hér er sjónum beint að blágrænum regnvatnslausnum þar sem lögð er áhersla á að viðhalda eins og kostur er náttúrulegri hringrás vatns á hverjum stað. Í þessu samhengi er m.a. horft til þess að skipulags- og fráveitumál í þéttbýli stuðli að náttúrlegri hringrás í stað þess að veita t.d. regnvatni beint í frárennsliskerfi gatna. Slíkt verklag viðheldur m.a. grunnvatnsstöðu og eðlilegu ástandi tjarna og vatna á svæðinu.
Veðurstofa Íslands er nú í forsvari fyrir Íslensku vatnafræðinefndina en hlutverk nefndarinnar er að fara með alþjóðasamstarf á sviði vatnafræði innan vébanda Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Dr. Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor við umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, sem á sæti í Íslensku vatnafræðinefndinni, hefur leitt bæði rannsóknir og kennslu um blágrænar regnvatnslausnir hérlendis. Með því hefur hún eflt íslenskan þekkingargrunn og um leið styrkt farsæla innleiðingu slíkra lausna. Hrund hlaut einmitt nýverið styrk úr Rannsóknarsjóði Rannís til að vinna að rannsóknum er snúa að sjálfbærri regnvatnsstjórnun í köldu loftslagi.
Ráðgjafafyrirtækið Alta gaf út rit með yfirsýn yfir blágrænar regnvatnslausnir, en Alta sinnti ráðgjöf við skipulag nýs hverfis í Urriðaholti í Garðabæ. Urriðaholtið er fyrsta hverfið á Íslandi þar sem einvörðungu eru nýttar blágrænar regnvatnslausnir og hófst innleiðing þeirra árið 2008 með uppbyggingu hverfisins.
„Blágrænu regnvatnslausnunum er beitt til að draga úr álagi á fráveitukerfi og viðhalda um leið heilbrigðum og sjálfbærum vatnsbúskap. Markmiðið er margþætt og felur m.a. í sér auðveldara og ódýrara viðhald fráveitukerfa, lengri líftíma þeirra og síðast en ekki síst ávinninginn sem felst í að hleypa vatni og gæðum þess aftur inn í hið byggða umhverfi á öruggan og markvissan hátt“, segir meðal annars í ritinu.
Með notkun blágrænna regnvatnslausna skilar vatnið sér niður í jarðveginn nálægt staðnum þar sem það fellur, í stað þess að vera leitt burt í lokuðu fráveitukerfi. Mynd: ALTA.