Landris heldur áfram á Sundhnúksgígaröðinni en hraðinn minnkað örlítið
Uppfært 21. janúar kl. 14:10- Hraði landriss hefur minnkað örlítið síðustu vikur. Breytingin hefur ekki áhrif á fyrra mat um líklega atburðarás.
- Samkvæmt líkanreikningum má því gera ráð fyrir því að líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast í lok janúar eða byrjun febrúar
- Jarðskjálftavirkni hefur verið lítil í kringum Sundhnúk og Svartsengi
- Hættumat gildir til 28. janúar, að óbreyttu.
GPS-mælingar sýna að hraði landriss hefur minnkað örlítið á síðustu vikum en varasamt getur verið að túlka einstaka GPS-punkta. Truflun á þessum árstíma veldur því að breytileiki milli daga er meiri vegna veðuraðstæðna. Í staðinn þarf að horfa á mælingar yfir lengri tíma, en þær sýna áframhaldandi landris.
Atburðarásin er því enn í fullum gangi og er að þróast mjög svipað og fyrir síðustu gos. Samkvæmt líkanreikningum mun rúmmál kviku undir Svartsengi ná neðri mörkum í lok janúar eða byrjun febrúar. Þetta þýðir að það má gera ráð fyrir því að líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast frá þeim tíma.
Færslur á GPS-stöðinni SENG á Svartsengissvæðinu síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (20. janúar) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu sjö eldgosa (18. desember 2023, 14. janúar, 8. febrúar, 16. mars, 29. maí, 22. ágúst og 20. nóvember 2024). Bláu línurnar tákna tímasetningar kvikuhlaupa sem hafa orðið án þess að hafi komið til eldgoss (10. nóvember 2023 og 2. mars 2024).
Jarðskjálftavirkni frá því að síðasta eldgosi lauk, 9. desember síðastliðinn, þar til dagsins í dag hefur verið mest áberandi í kringum Trölladyngju og aðeins í Fagradalsfjalli, en virknin hefur verið mjög lítil í kringum Sundhnúk og Svartsengi.
Hættumat verður uppfært 28. janúar, að öllu óbreyttu. Það mun taka mið af auknum líkum á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi samkvæmt fyrrnefndri tímalínu.
Uppfært 14. janúar kl: 15:00
- Skjálftavirkni áfram lítil
- Áætlað að rúmmál kviku undir Svartsengi nái neðri mörkum í lok janúar eða byrjun febrúar
- Hættumat uppfært og gildir til 28.janúar að öllu óbreyttu
Aflögunargögn sýna að landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram. Ef kvikusöfnun heldur áfram á svipuðum hraða munu 12 milljón rúmmetrar af kviku hafa safnast undir Svartsengi í lok janúar eða byrjun febrúar. Þá er talið, skv. líkanreikningum, að líkurnar á kvikuhlaupi og eldgosi fari að aukast. Líkönin byggja á áætluðu kvikuinnflæði á hverjum tíma en litlar breytingar á því innflæði geta haft áhrif á matið á mögulegum tímasetningum næsta eldgoss.
Eins og síðustu vikur hefur verið lítil jarðskjálftavirkni í kringum Svartsengi.
Hættumat Veðurstofunnar hefur verið uppfært og hafa engar breytingar verið gerðir. Það gildir til 28. Janúar, að öllu óbreyttu.
(Smellið á kortið til að stækka)
Uppfært 7. janúar kl: 15:00
- Landris heldur áfram á svipuðum hraða
- Áætlað að rúmmál kviku undir Svartsengi nái neðri mörkum í lok janúar
- Jarðskjálftavirkni áfram lítil
Þróun við Svartsengi og Sundhnúksgígaröðina heldur áfram með svipuðu móti. Í síðasta gosi er metið að um 12-15 milljón rúmmetrar af kviku hafi farið undan Svartsengi. Þegar því rúmmáli er náð eru taldar auknar líkur á að kvikuhlaup og/eða eldgos geti átt sér stað. Líkanreikningar gera ráð fyrir að 12 milljón mörkum verði náð í lok janúar.
Áfram er jarðskjálftavirkni við Svartsengi og Sundhnúksgígaröðina mjög lítil.
Hættumat Veðurstofunnar verður uppfært 14. janúar að öllu óbreyttu.
Færslur á GPS stöðinni SENG á Svartsengissvæðinu síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (7. janúar) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu sjö eldgosa (18. desember 2023, 14. janúar, 8. febrúar, 16. mars, 29. maí, 22. Ágúst og 20. nóvember 2024). Bláu línurnar tákna tímasetningar kvikuhlaupa sem hafa orðið án þess að hafi komið til eldgoss (10. nóvember 2023 og 2. mars 2024).
Frétt 2. janúar
Hraði á kvikuinnflæði undir Svartsengi svipaður og fyrir síðasta eldgos
Nýjustu gögn benda til þess að líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi aukist í lok janúar
- Uppfært hættumat gildir til 14. janúar að öllu óbreyttu
- Nýjasta hraunbreiðan hættuleg göngufólki
Aflögunargögn fram til 30. desember 2024 sýna að kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram.
Líkur eru taldar aukast á nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi þegar jafn mikið magn af kviku hefur safnast undir Svartsengi og fór þaðan í kvikuhlaupinu og eldgosinu 20. nóvember. Líkanreikningar sýna að þetta magn er á bilinu 12-15 milljónir rúmmetra.
Ef kvikusöfnun heldur áfram á svipuðum hraða og undanfarið má gera ráð fyrir því að rúmmál kviku undir Svartsengi nái 12 milljónum m3 í lok janúar, en í fyrstu vikunni í febrúar verði það orðið um 13.5 milljónir m3.
Samkvæmt líkanreikningum sem byggja á nýjustu aflögunargögnum er kvikuinnflæðið nú rétt rúmlega 3 m3/s, sem er svipaður hraði og fyrir síðasta eldgos. Miðað við þann hraða má því gera ráð fyrir því að líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast í lok janúar.
Líkönin byggja á áætluðu kvikuinnflæði á hverjum tíma og litlar breytingar á því flæði hafa áhrif á matið á mögulegum tímasetningum næsta eldgoss.
Nýjasta hraunbreiðan hættuleg göngufólki
Hættumat Veðurstofunnar hefur verið uppfært og gildir að öllu óbreyttu til 14. janúar 2025.
Helsta breytingin er á svæði 6 þar sem heildarhætta er nú metin nokkur (gul) en var áður metin töluverð (appelsínugul). Heildarhætta á svæði 6 er nú metin minni vegna þess að hætta á hraunflæði á svæðinu hefur lækkað.
Þótt hætta á hraunflæði sé nú talin minni en áður er hraunbreiðan enn heit og hættuleg göngufólki.
Jarðskjálftahrinur nærri Eldey algengar undanfarin ár
Afar lítil jarðskjálftavirkni hefur verið á Sundhnúksgígaröðinni frá því að síðasta eldgosi lauk 8. desember 2024.
Á öðrum nærliggjandi svæðum hefur þó verið nokkur jarðskjálftavirkni, en um 200 jarðskjálftar, þar af tveir yfir M3 að stærð, mældust í hrinu dagana 29. – 31. desember 2024 nærri Eldey á Reykjaneshrygg. Jarðskjálftahrinur nærri Eldey hafa verið algengar undanfarin ár, en hátt í 60 jarðskjálftar yfir M3 að stærð hafa mælst þar síðustu 4 ár.
Áfram mælast stöku skjálftar þar en hrinunni er að mestu lokið. Áfram mælast reglulega jarðskjálftar í vestanverðu Fagradalsfjalli. Þar hafa rúmlega 60 smáskjálftar mælst síðasta mánuðinn, flestir á um 6-8 km dýpi.