Fréttir
mynd

Skjálftahrina við Grímsey

16.2.2018

Jarðskjálftahrinur hafa verið mjög tíðar í nágrenni Grímseyjar undanfarin misseri. Jarðskjálftahrina um 10-12 km norðaustan við Grímsey hefur staðið nær óslitið frá 14. febrúar og um hádegi þann 16. febrúar höfðu hátt á annað þúsund skjálftar mælst á svæðinu. Rúmlega 10 skjálftar yfir þrír að stærð hafa  mælst og  þann 15. febrúar kl. 19:37 mældist skjálfti  af stærð 4.1. Sumir þessara skjálfta hafa fundist í Grímsey. Þetta er mesta skjálftahrina á þessu svæði síðan í apríl 2013 þegar kröftug hrina varð í kjölfar skjálfta af stærðinni 5.5 á svipuðum slóðum, sjá eldri frétt.

Mun minni orkuútlausn mælist í þessari hrinu  en hún hefur  verið óslitnari en þó  hviðukennd. Samfelldar GPS mælingar í Grímsey  sýna enga mælanlega aflögun tengda þessari hrinu sem bendir til að skjálftavirknin sé frekar tengd flekaskilunum og jarðhitavirkninni á þessum slóðum. Benda verður á að á þessu svæði og raunar öllu Tjörnesbrotabeltinu geta orðið mun stærri skjálftar og því verður alltaf að hafa í huga að í kjölfarið á hrinum sem þessum geta orðið talsvert stærri skjálftar. Upplýsingar um varnir og viðbúnað við stærri jarðskjálftum má finna á síðu Almannavarna. Örlítið hefur dregið úr hrinunni enn þó getur hún tekið sig upp aftur og ómögulegt er að segja fyrir um hvenær henni lýkur.

Myndin hér að ofan:

Rauðu punktarnir á myndinni hér að ofan sýna upptök skjálfta frá byrjun janúar til 16. febrúar 2018. Skjálftar á stærðarbilinu 3-4 stig eru sýndir með svörtum stjörnum og hvítu stjörnurnar sýna skjálfta yfir 4 að stærð.  Gráu punktarnir tákna skjálfta á tímabilinu 1994-2017.  Brúnu strikalínurnar sýna Húsavíkurmisgengið og svörtu örvarnar sýna hreyfingarstefnuna um Húsavíkur-Flateyjarmisgengið (HFF).  Svörtu þríhyrningarnir sýna jarðskjálftamælistöðvar Veðurstofunnar.

Myndin hér fyrir neðan:

Myndin sýnir færslur í norður, austur og upp fyrir GPS stöðina í Grímsey síðasta árið. Engin mælanleg færslubreyting sést í tengslum við jarðskjálftahrinuna.

mynd





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica