Fréttir
Umfang skriðunnar úr Fagraskógarfjalli er gríðarlegt
Umfang skriðunnar úr Fagraskógarfjalli var gríðarlegt. Smelltu til að stækka myndina.

Stórt framhlaup úr Fagraskógarfjalli í Hítardal

Ein af stærstu skriðum sem fallið hafa á sögulegum tímum á Íslandi

9.7.2018

Að morgni 7. júlí sl. féll stór skriða eða framhlaup úr Fagraskógarfjalli í Hítardal. Skriðan fór yfir Hítará og stíflaði hana með þeim afleiðingum að lón myndaðist ofan skriðutungunnar. Daginn eftir fann áin sér nýjan farveg yfir hraunið og í Tálma, hliðará sem sameinast Hítará nokkrum kílómetrum neðar.

Framhlaupið sést á jarðskjálftamælum kl. 05:17 að morgni 7. júlí og er talið að meginskriðan hafi fallið þá. Refaskytta sem var á svæðinu heyrði í skriðu um 23:30 kvöldið áður og þegar rofaði til sást að skriða hafði fallið þar sem stóra framhlaupið féll síðar, en þessi skriða náði þó ekki út í ána. Því virðist lítil skriða hafa fallið fyrst og síðan hafi meginhlaupið komið tæpum fimm tímum síðar.

Kort_Hitardalur

Útlínur skriðunnar voru að hluta til mældar með GPS tæki og að hluta til teiknaðar út frá ljósmyndum og SpotSAR gögnum frá Landhelgisgæslu Íslands - TF-SIF. Útlínur stífluvatnsins og nýs farvegs Hítarár voru metnar út frá SpotSAR gögnum Landhelgisgæslunnar.

Smelltu hér til að sjá PDF útgáfu af kortinu.

Skriðan 20-30m að þykkt þar sem hún er þykkust

Framhlaupið féll úr svæði þar sem jarðlög hafa hreyfst áður og er mögulega gamalt framhlaup. Efnið í skriðunni er samhræringur af m.a. bergbrotum, skriðuefni úr neðanverðri hlíðinni, mýrarjarðvegi og seti úr fornum stöðuvötnum á dalbotninum. Frumniðurstöður mælinga og athugana sérfræðinga Veðurstofunnar á vettvangi í gær, sunnudag, benda til þess að  rúmmál framhlaupsins er á bilinu 10–20 milljón m3. Flatarmálið er nálægt 1,5 milljón m2 og þar sem skriðan er þykkust er hún líklega 20–30 m að þykkt, en jaðarinn er víða 5–10 m þykkur. Skriðan er því talin vera ein af stærstu skriðum sem fallið hafa á sögulegum tíma á Íslandi, en til samanburðar var berghlaupið í Öskju í júlí 2014 um 20 milljón m3.

4d4sG6Fg

Mynd tekin við jaðar skriðunnar þar sem glögglega má sjá þykkt hennar í samanburði við manninn sem stendur ofan á skriðunni. (Ljósmynd: Tómas Jóhannesson)

Talið er að veikleiki hafi verið fyrir í fjallinu sem varð til þess að hlíðin sprakk fram. Einnig er líklegt að rigningar og leysing undanfarna mánuði hafi gert það að verkum að vatnsþrýstingur í sprungum á svæðinu hafi verið óvenju mikill og veikleikarnir valdið því að hlíðin gaf sig á þessum stað.

Úthlaupshorn skriðunnar er um 12–13° sem sýnir að skriðlengd hennar var mikil. Skriðan virðist hafa hrifið með sér eldra skriðuefni í aurkeilu neðan við brotsárið, og talið er að hún hafi komið niður á mikilli ferð og plægt sig niður í mýrarjarðveg, setlög í dalbotninum og í gegnum hluta hraunsins austan við gamla farveg Hítarár.

Mikil landspjöll vegna hlaupsins

Það á eftir að koma í ljós hversu mikið tjónið af völdum framhlaupsins er. Hlaupið olli miklum landspjöllum og líklegt má telja að fé hafi orðið undir hlaupinu. Hítará er þekkt laxveiðiá og ljóst er að töluverðar breytingar verða á vatnafari svæðisins og því gæti tjónið fyrir veiðiréttareigendur orðið töluvert.

IMG_9236

Hér má sjá hvernig skriðan hefur plægt sig niður í jarðveginn. (Ljósmynd: Tómas Jóhannesson)

Ekki er ráðlegt að vera á ferðinni nálægt skriðusárinu

 Að svo stöddu er ekki talin vera sérstök hætta á öðru stóru framhlaupi á svæðinu en þó er mikið um grjóthrun og smáskriður í skriðusárinu og getur sú virkni varað áfram. Það er því ekki ráðlegt að vera á ferðinni nálægt sárinu og hefur lögreglan lokað tveimur vegslóðum sem liggja upp að skriðunni.

Næstu skref eru að vinna úr mælingum sem gerðar hafa verið og skoða loftmyndir og aðrar ljósmyndir af svæðinu, bæði fyrir og eftir skriðufallið. Þá verður hægt að leggja nákvæmara mat á rúmmálið og átta sig betur á eðli skriðunnar.

DSC06272--1-

Í tengslum við framhlaupið myndaðist sprunga ofarlega í hlíðinni innan við brotsárið og fylgst verður með henni á næstunni. (Ljósmynd: Oddur Sigurðsson)

9zj7zgcw

Númerið sem sést á myndinni er númer veiðstaðar umlukið aur úr skriðunni. Á bakvið sést þurr árfarvegurinn. (Ljósmynd: Tómas Jóhannesson)





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica