Fréttir

Tíðarfar í apríl 2023

Stutt yfirlit

3.5.2023


Tíðarfar var hagstætt í apríl. Mánuðurinn var hægviðrasamur og hlýr á landinu öllu. Það kólnaði þó talsvert síðustu vikuna.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í apríl var 5,3 stig og er það 1,6 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 1,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Mánuðurinn var 7. hlýjasti aprílmánuður í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga. Á Akureyri var meðalhitinn 4,2 stig, 1,6 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 1,0 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 4,0 stig og 4,4 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2013-2022 °C
Reykjavík 5,3 1,6 7 153 1,2
Stykkishólmur 4,0 1,3 11 178 0,8
Bolungarvík 3,2 1,7 9 til 10 126 1,1
Grímsey 2,1 0,9 20 150 0,4
Akureyri 4,2 1,6 16 til 17 143 1,0
Egilsstaðir 3,4 1,4 14 69 0,8
Dalatangi 2,8 0,7 19 til 21 85 0,3
Teigarhorn 3,3 0,4 36 151 0,1
Höfn í Hornaf. 4,4


0,4
Stórhöfði 5,2 1,3 11 147 1,2
Hveravellir -0,1 2,2 5 59 1,8
Árnes 4,3 1,4 14 143 1,0

Meðalhiti og vik (°C) í apríl 2023

Mánuðurinn var hlýr á landinu öllu, en það kólnaði þó talsvert síðustu vikuna. Að tiltölu var hlýjast inn til landsins suðvestan- og norðaustanlands og inná hálendi. En það var kaldast að tiltölu á annesjum norðaustan- og austanlands. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 2,2 stig við Veiðivatnahraun en minnst 0,1 stig á Kambanesi.


Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í apríl miðað við síðustu tíu ár (2013 til 2022).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 6,3 stig í Surtsey en lægstur -2,7 stig á Gagnheiði. Í byggð var meðalhitinn lægstur 0,5 stig í Svartárkoti.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 18,4 stig í Hallormsstað þ. 19. Mest frost í mánuðinum mældist -18,6 stig við Setur þ. 28. Í byggð mældist frostið mest -11,9 stig á Staðarhóli í Þingeyjarsýslu.

Úrkoma

Mánaðarúrkoman í Reykjavík mældist 87,0 mm sem er 50 % yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoma mánaðarins 21,7 mm sem er um 85 % af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 49,9 mm.

Dagar þegar úrkoma var 1,0 mm eða meiri voru 16 í Reykjavík, eða fimm dögum fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 4 daga mánaðarins, tveimur færri en í meðalári.

Snjór

Í Reykavík var jörð alhvít einn morgun mánaðarins, það var þ. 27. og mældist snjódýptin 11 cm. Það er heldur fátítt að alhvítur dagur sé skráður svo seint í Reykjavík. Það snjóaði víðar suðvestanlands þennan dag og það var t.a.m. talsverður snjór á Selfossi, Hellu og Hvolsvelli. Mánuðurinn var alauður á Akureyri, en þar er jörð að jafnaði alhvít fimm daga í apríl.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 170,4 sem er 5,3 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 165,7 sem er 38,2 stundum fleiri en í meðalári.

Vindur

Apríl var tiltölulega hægviðrasamur. Vindur á landsvísu var 0,8 m/s undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Austlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum. Hvassast var þ. 7. (suðaustanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur mánaðarins mældist 1012,5 hPa í Reykjavík og er það 3,2 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1037,4 hPa í Grímsey þ. 21. Lægsti mældi loftþrýstingur mánaðarins var 985,4 hPa á Teigarhorni þ. 11.

Fyrstu fjórir mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu fjóra mánuði ársins mældist 1,0 stig sem er 0,5 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,9 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti mánaðanna fjögurra raðast í 63. til 65. hlýjasta sæti á lista 153 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna fjögurra 0,2 stig, sem er 0,2 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 40. hlýjasta sæti á lista 143 ára.

Úrkoma í Reykjavík það sem af er ári hefur mælst 307,5 mm sem er 97% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 153,1 mm sem er 82% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Skjöl fyrir apríl

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í apríl 2023 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica