Tíðarfar í desember 2021
Stutt yfirlit
Desember var hægviðrasamur og tíð almennt góð. Að tiltölu var snjólétt á landinu, einkum um miðbik mánaðar. Undir lok mánaðar snjóaði töluvert á Norðausturlandi og var jafnfallinn snjór á Akureyri 47 cm á gamlársdag. Fyrri hluti mánaðar var þurr á Norðurlandi á meðan úrkomusamara var suðvestanlands. Síðari hluti mánaðarins var hins vegar þurr á Suðvesturlandi og kviknuðu víða gróðureldar um áramótin í tengslum við flugelda.
Hiti
Meðalhiti desembermánaðar var 1,5 stig í Reykjavík. Það er 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 1,0 stigi yfir meðallagi undanfarinna tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -1,2 stig sem er 0,5 stigum undir meðallagi undanfarinna þriggja áratuga og 0,2 stigum undir meðallagi síðastliðins áratugar. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 0,9 stig og 1,2 stig á Höfn í Hornafirði.
Meðalhita og vik frá fleiri stöðvum má sjá í eftirfarandi töflu.
stöð | meðalhiti °C | vik 1991-2020 °C | röð | af | vik 2011-2020 °C |
Reykjavík | 1,5 | 0,8 | 28 | 151 | 1,0 |
Stykkishólmur | 0,9 | 0,5 | 34 | 176 | 0,8 |
Bolungarvík | 0,9 | 0,8 | 26 | 124 | 1,0 |
Grímsey | 0,6 | -0,1 | 43 | 148 | -0,2 |
Akureyri | -1,2 | -0,5 | 63 | 141 | -0,2 |
Egilsstaðir | -1,9 | -0,8 | 38 | 67 | -0,8 |
Dalatangi | 2,5 | 0,7 | 20 | 84 | 0,6 |
Teigarhorn | 1,2 | 0,2 | 48 til 53 | 149 | 0,0 |
Höfn í Hornaf. | 1,2 | 0,0 | |||
Stórhöfði | 3,3 | 1,0 | 20 | 145 | 1,2 |
Hveravellir | -4,3 | 0,7 | 14 | 57 | 1,0 |
Árnes | 0,1 | 0,9 | 31 | 142 | 1,1 |
Meðalhiti og vik (°C) í desember 2021.
Að tiltölu var hlýjast á sunnan- og vestanverðu landinu þar sem hitavik miðað við síðustu tíu ár voru að mestu leyti jákvæð. Kaldara var að tiltölu á norðaustanverðu landinu þar sem hitavikin voru að mestu neikvæð. Jákvætt hitavik var mest 1,5 stig í Mikladal á Vestfjörðum. Neikvætt hitavik var mest -1,5 stig á Brú á Jökuldal.
Hitavik sjálfvirkra stöðva í desember miðað við síðustu tíu ár (2011-2020)
Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 4,4 stig. Lægstur mældist mánaðarmeðalhitinn -6,3 stig í Sandbúðum á Sprengisandi. Lægsti meðalhiti í byggð mældist -5,6 stig í Möðrudal.
Um miðjan mánuðinn var óvenju hlýtt á Austurlandi. Hæsti hiti mánaðarins mældist 16,1 stig á Dalatanga þ. 17. Lægstur mældist hitinn -21,4 stig við Mývatn þ. 4. Það var jafnframt lægsti hiti mánaðarins í byggð.
Úrkoma
Heildarúrkoma mánaðarins í Reykjavík mældist 92,2 mm sem er 2,7 mm undir meðallagi desembermánaðar áranna 1991 til 2020 og 97% af meðalúrkomu þess tímabils. Á Akureyri var heildarúrkoma mánaðarins 46,8 mm sem eru um 64% af meðalúrkomu undanfarinna þriggja áratuga. Úrkoma mældist einnig undir meðallagi í Stykkishólmi, en þar mældust 45,0 mm sem eru um 53% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.
Úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri 17 desemberdaga í Reykjavík, þremur fleiri en að meðallagi undanfarna þrjá áratugi. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 6 daga, sex færri en í meðalári.
Snjór
Desember var að tiltölu snjóléttur á landinu, sérstaklega um miðbik mánaðar.
Jörð var alauð 17 desembermorgna í Reykjavík og alhvít 6 morgna, sex færri en að meðallagi undanfarinna þriggja áratuga. Á Akureyri voru alauðir morgnar 10 og alhvítir morgnar 15, þremur færri en í meðalári. Þar var snjólétt langt fram eftir mánuðinum en svo kyngdi niður snjó þann 27. og 28., samtals 39 cm jafnfallið. Jafnfallinn snjór var 47 cm á gamlársdag á Akureyri.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundir mánaðarins mældust 10,3 í Reykjavík sem er 2,3 klukkustundum undir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 0,8 sólskinsstundir í desember, en það er hálfri klukkustund yfir meðallagi sama tímabils.
Vindur
Desember var hægviðrasamur. Meðalvindhraði á landsvísu var 1,3 m/s lægri en í meðaldesember 1991 til 2020. Hvassast var þ. 5. (suðaustanátt).
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1001,4 hPa sem er 2,2 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1039,7 hPa þ. 19. á Fonti og á Kollaleiru í Reyðarfirði. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 962,3 hPa í Grindavík þ. 11.
Skjöl fyrir desember
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í desember 2021
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu