Tíðarfar í desember 2022
Stutt yfirlit
Desember var óvenjulega kaldur. Þetta var kaldasti desembermánuður á landinu síðan 1973. Í Reykjavík hefur desembermánuður ekki verið eins kaldur í rúm 100 ár, en desember 1916 var álíka kaldur og nú. Það var þurrt um mest allt land, og víða mældist desemberúrkoman sú minnsta sem mælst hefur í áratugi. Snjór og hvassviðri ollu talsverðum samgöngutruflunum seinni hluta mánaðarins. Loftþrýstingur var óvenju hár í mánuðinum.
Hiti
Desember var óvenjulega kaldur um allt land. Meðalhiti í byggðum landsins var -4,0 stig, og hefur desembermánuður ekki verið kaldari á landinu síðan 1973. Mánuðurinn var áttundi kaldasti desembermánuður á landsvísu frá upphafi mælinga.
Óvenjukalt var í Reykjavík. Meðalhitinn í desember var -3,9 stig og er það 4,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 4,9 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Desembermánuður hefur ekki verið eins kaldur í Reykjavík í rúm 100 ár, en desember 1916 var álíka kaldur og nú. Meðalhiti desembermánaðar hefur aðeins þrisvar sinnum verið lægri í Reykjavík, en það voru desembermánuðir áranna 1878, 1886 og 1880 (þá var mun kaldara). Á Akureyri var meðalhitinn -5,3 stig, 4,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 4,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta var sjöundi kaldasti desembermánður frá upphafi mælinga á Akureyri, og sá kaldasti síðan 1973. Í Stykkishólmi var meðalhitinn -2,7 stig og -2,6 stig á Höfn í Hornafirði. Mánuðurinn var kaldasti desembermánuður frá uppphafi mælinga á Hveravöllum þar sem meðalhitinn var -10,5 stig. Mælingar hófust þar árið 1965.
Meðalhita og vik á fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.
stöð | meðalhiti °C | vik 1991-2020 °C | röð | af | vik 2012-2021 °C |
Reykjavík | -3,9 | -4,7 | 149 | 152 | -4,9 |
Stykkishólmur | -2,7 | -3,2 | 157 | 177 | -3,2 |
Bolungarvík | -2,2 | -2,3 | 109 | 125 | -2,5 |
Grímsey | -2,6 | -3,3 | 134 | 149 | -3,5 |
Akureyri | -5,3 | -4,7 | 136 | 142 | -4,6 |
Egilsstaðir | -5,9 | -4,8 | 67 | 68 | -5 |
Dalatangi | -1,5 | -3,3 | 84 | 85 | -3,7 |
Teigarhorn | -2,4 | -3,4 | 143 | 149 | -3,8 |
Höfn í Hornaf. | -2,6 | -4 | |||
Stórhöfði | -0,6 | -2,9 | 137 | 146 | -3 |
Hveravellir | -10,5 | -5,4 | 58 | 58 | -5,6 |
Árnes | -5,5 | -4,6 | 139 til 140 | 143 | -4,9 |
Meðalhiti og vik (°C) í desember 2022
Mjög
kalt var í desember og meðalhitinn var langt undir meðaltali á
landinu öllu. Að tiltölu var kaldara inn til landsins, en ekki
eins kalt við Suðurströndina, á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum.
Neikvætt hitavik miðað við síðustu 10 ár var mest -6,6 stig í
Húsafelli, en minnst -2,5 stig í Bolungarvík.
Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í desember miðað við síðustu tíu ár (2012 til 2021).
Meðalhiti mánaðarins var hæstur 0,7 stig í Surtsey en lægstur -10,9 stig í Sandbúðum. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -9,4 stig.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 14,4 stig á Seyðisfirði þ. 1. Mest frost í mánuðinum mældist -27,4 stig við Kolku þ. 30. Mest frost í byggð mældist -27,1 stig í Möðrudal þ. 24.
Úrkoma
Það var þurrt í desember, óvenju þurrt á sumum stöðum. Víða mældist desemberúrkoman sú minnsta sem mælst hefur í áratugi.
Úrkoma í Reykjavík mældist 34,1 mm sem er um 35% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Svo lítil úrkoma hefur ekki mælst í Reykjavík í desember síðan 1985. Á Akureyri mældist úrkoman 65,4 mm sem er um 90% af heildarúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 28,0 mm.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 9, fimm færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 14 daga mánaðarins, tveimur fleiri en í meðalári.
Snjór
Snjór kom óvenju seint þennan veturinn, bæði á Akureyri og í Reykjavík. Fyrsti alhvíti dagurinn á Akureyri var skráður þ. 11.desember, og er það í fyrsta sinn sem ekki verður alhvítt þar fyrr en í desember. Í Reykjavík var fyrsti alhvíti dagurinn þ. 17. desember. Þetta er í áttunda sinn síðustu 100 árin að ekki verður alhvítt í Reykjavík fyrr en í desember. Síðast gerðist það árið 2000, þá varð fyrst alhvítt þann 16. en metið er 18. desember 1933.
Eftir að snjórinn kom hélst hann út mánuðinn og olli talsverðum samgöngutruflunum. Snjór var ekki óvenjumikill á þeim veðurstöðvum sem mæla snjódýpt, en snjórinn var þurr og léttur og skóf auðveldlega í húsagötur og skafla.
Alhvítir dagar í Reykjavík voru 15 í Reykjavík í desember sem er 3 dögum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Alhvítir dagar á Akureyri voru 22, fjórir fleiri en að meðaltali 1991 til 2020.
Sólskinsstundafjöldi
Óvenju sólríkt var í Reykjavík í desember. Sólskinsstundirnar mældust 51,0 í desember sem er 38,4 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Þetta er sólríkasti desembermánuður frá upphafi mælinga í Reykjavík. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 0,9, sem er rétt yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Vindur
Vindur á landsvísu var 0,5 m/s undir meðallagi. Norðlægar og norðaustlægar áttir voru ríkjandi allan mánuðinn. Hvassast var dagana 19. til 21. þegar norðaustanhvassviðri gekk yfir landið.
Loftþrýstingur
Loftþrýstingur var óvenjuhár í mánuðinum. Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1016,4 hPa og er það 17,2 hPha yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Aðeins einu sinni hefur þrýstingur mælst eins hár í Reykjavík í desember en það var árið 2010.
Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1046,9 hPa í Reykjavík-Víðidal þ. 6, en lofþrýstingur var óvenjulega hár á landinu dagana 5. til 6. Lægstur mældist þrýstingurinn 978,8 hPa í Grindavík þ. 31.
Skjöl fyrir desember
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í desember 2022 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.