Fréttir

Tíðarfar í janúar 2025

Stutt yfirlit

4.2.2025


Janúar var tiltölulega kaldur, sérstaklega á Norðausturlandi. Mánuðurinn var hægviðrasamur miðað við árstíma.  Hlýindi og miklar rigningar um miðjan mánuð ollu miklum leysingum og flæddu ár og lækir víða yfir vegi og tún. Töluverð snjóþyngsli voru á Austurlandi í mánuðinum. Þar snjóaði óvenjumikið þ. 20. og mældist snjódýptin á Austfjörðum með því mesta sem vitað er um í janúarmánuði. Síðasta dag mánaðarins skall stormur á landinu sem olli bæði fok- og vatnstjóni, auk ofanflóða og mikilla samgöngutruflana.

Hiti

Meðalhiti janúarmánaðar í Reykjavík mældist -0,4 stig. Það er 1,0 stigi undir meðallagi 1991 til 2020 og 0,4 stigum undir meðallagi undanfarins áratugar. Á Akureyri mældist meðalhiti mánaðarins 3,0 stig sem er 2,5 stigum undir meðallagi janúarmánaða áranna1991 til 2020 og 1,9 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi mældist meðalhitinn -0,4 stig og -0,5 stig á Höfn í Hornafirði. Meðalhita og vik frá fleiri stöðvum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2015-2024 °C
Reykjavík -0,4 -1,0 82 til 83 155 -0,4
Stykkishólmur -0,4 -0,6 70 180 -0,2
Bolungarvík -0,5 -0,3 58 128 0,0
Grímsey -0,9 -1,4 80 152 -1,2
Akureyri -3,0 -2,5 104 til 105 145 -1,9
Egilsstaðir -3,3 -2,4 55 71 -2,0
Dalatangi 0,3 -1,4 58 til 59 88 -1,3
Teigarhorn -0,4 -1,4 95 153 -1,1
Höfn í Hornaf. -0,5


-1,2
Stórhöfði 1,6 -0,7 77 149 -0,3
Hveravellir -5,7 -0,6 30 61 0,2
Árnes -2,3 -1,4 82 146 -0,8

Tafla 1: Meðalhiti og vik (°C) í janúar 2025.

Tiltölulega kalt var um allt land í janúar nema vestast á landinu þar sem meðalhitinn var nærri meðallagi undanfarins áratugar. Að tiltölu var kaldast á Suðurlandsundirlendinu, Austfjörðum og inn til landsins á Norðausturlandi (sjá mynd 1). Í mánuðinum sem leið mældist lægsti meðalhiti janúarmánaðar sem mælst hefur á öldinni á þónokkrum veðurstöðvum í norðausturfjórðungi landsins. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 0,5 stig á Skarðsheiði en neikvætt hitavik var mest -2,0 stig að Torfum í Eyjafirði.


Mynd 1: Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í janúar miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 2,8 stig í Surtsey. Lægstur mældist meðalhitinn -7,9 stig í Sandbúðum. Lægsti meðalhiti í byggð mældist -5,7 stig á Grímsstöðum á Fjöllum.

Yfirlit yfir landsmeðalhita hvers dags janúarmánaðar miðað við síðustu tíu ár má sjá á mynd 2. Þar sést að kalt var í upphafi og lok mánaðar en hlýindakafli var fyrir og um miðjan mánuð.



Mynd 2: Landsmeðalhiti hvers dags það sem af er ári 2025, miðað við síðustu tíu ár (2015 til 2024).

Hæsti hiti mánaðarins mældist 15,6 stig á Dalatanga (þ.14.) og Kvískerjum (þ.13.). Lægstur mældist hitinn -25,9 stig þ. 30. í Möðrudal. Lægsti hiti mánaðarins í byggð mældist -25,8 stig á Þingvöllum þ. 9.

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 107,9 mm í janúar sem er 25% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 73,6 mm sem er 20% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman í janúar 69,2 mm og 171,0 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 13, sem er 2 færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 11 daga, eða jafn margir og í meðalári.

Um miðjan mánuð hlýnaði og rigndi talsvert, sem olli miklum leysingum á Suðurlandi, Norðurlandi og Vesturlandi. Ár og lækir flæddu víða vel yfir bakka sína, m.a. yfir vegi og tún. 

Snjór

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 19 í janúar, eða 7 fleiri en að meðaltali árin 1991 til 2020. Á Akureyri voru 26 alhvítir dagar í mánuðinum, 4 fleiri en í meðalári.

Mánuðurinn var snjóþungur á Austurlandi. Á Dalatanga voru 27 alhvítir dagar í janúar, sem er 14 fleiri en í meðalári. Alhvítir dagar hafa ekki verið svo margir á Dalatanga í janúarmánuði síðan 1993.

Það snjóaði óvenjulega mikið á Austurlandi þ. 20. Rýmt var vegna snjóflóðahættu á Seyðisfirði og í Neskaupstað. Nokkur meðalstór snjóflóð féllu, sem ógnuðu ekki byggð.

Snjódýptin mældist mest 90 cm á Dalatanga að morgni þess 20. Það er mesta snjódýpt sem mælst hefur í janúarmánuði frá því að snjódýptarmælingar hófust þar árið 1966. Einnig mældist snjódýptin óvenjulega mikil í Neskaupsstað (85 cm) og á Hánefsstöðum í Seyðisfirði (74 cm). 

Sólskinsstundafjöldi

Í Reykjavík mældist 37,1 sólskinsstund í mánuðinum sem er 14,6 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 4,8 sólskinsstundir, eða 1,7 færri sólskinsstundir en að meðallagi í janúar árin 1991 til 2020.

Vindur

Janúar var hægviðrasamur um allt land og á nokkrum veðurstöðvum var meðalvindur sá lægsti sem mælst hefur í janúar á öldinni. Vindur á landsvísu var 1,2 m/s undir meðallagi janúarmánaða 1991 til 2020. Hvassast var þ. 15. (sunnanátt), þ.18. – 19. (austnorðaustanátt) og þ. 31. (suðaustanátt).

Stormur í lok mánaðar olli talsverðum samgöngutruflunum, foktjóni og ofanflóðum. Mikið álag var á fráveitukerfum á höfuðborgarsvæðinu og víða var mikill vatnselgur á götum úti.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur mánaðarins var að hár um allt land miðað við meðaltal annarra janúarmánaða aldarinnar. Í Reykjavík mældist meðalloftþrýstingurinn 1003,2 hPa sem er 5,9 hPa yfir meðallagi 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1031,5 hPa í Húsafelli þ. 1. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 968,0 hPa í Stykkishólmi þ. 23.

Skjöl fyrir janúar

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í janúar 2025 (textaskjal).

Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.















Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica