Fréttir

Tíðarfar í maí 2018

Stutt yfirlit

1.6.2018


Fremur svalt var í veðri í maí um landið suðvestanvert á meðan hlýtt var á Norðaustur- og Austurlandi. Mjög hlýir dagar voru í lok mánaðar á Norðuausturlandi. Mánuðurinn hefur verið óvenju úrkomusamur, þá sérstaklega vestanlands. Ný mánaðarúrkomumet voru sett á nokkrum stöðvum í maí. Í Reykjavík mældist úrkoma alla daga mánaðarins og hefur ekki mælst eins mikil úrkoma þar frá upphafi mælinga.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í maí var 5,7 stig og er það -0,6 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -1,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 7,4 stig, 1,9 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 0,8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Athygli vekur að meðalhitinn á Akureyri í maí var mun hærri en meðalhitinn í Reykjavík sem er óvenjulegt. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 5,2 stig og 7,3 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2008-2017 °C
Reykjavík 5,7 -0,6 99 til 100 148 -1,4
Stykkishólmur 5,2 0,3 79 173 -1,0
Bolungarvík 4,6 0,6 56 121 -0,6
Grímsey 5,4 2,7 4 145 1,3
Akureyri 7,4 1,9 24 138 0,8
Egilsstaðir 7,8 2,9 3 63 2,1
Dalatangi 6,2 2,9 3 80 1,8
Teigarhorn 6,3 2,1 9 146 1,1
Höfn í Hornaf. 7,3


0,5
Stórhöfði 5,5 -0,4 100 142 -1,0
Hveravellir 1,1 0,5 29 54 -0,9
Árnes 5,5 -0,6 90 138 -1,4

Meðalhiti og vik (°C) í maí 2018

Í maí var hlýtt að tiltölu á Norðaustur- og Austurlandi á meðan kalt var sunnan og vestanlands. Á mynd má sjá hitavik sjálfvirkra stöðva miðað við síðustu tíu ár. Þar má sjá hve skörp skil voru á milli landshluta í maí. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 2,6 stig á Skjaldþingsstöðum en neikvætt hitavik var mest á Botnsheiði, -1,5 stig.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í maí 2018 miðað við síðustu tíu ár 

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 7,8 stig á Egilsstaðaflugvelli. Lægstur var meðalhitinn -0,7 stig á Ásgarðsfjalli í Kerlingarföllum. Í byggð var meðalhitinn lægstur á Hornbjargsvita, 4,2 stig og í Svartárkoti, 4,5 stig.

Mesta frost í mánuðinum mældist -13,2 stig á Brúarjökli þ. 2. Mest frost í byggð mældist -8,7 stig á Grímsstöðum í Fjöllum þ. 3. Hæsti hiti mánaðarins mældist 24,3 stig í Ásbyrgi þ. 29. og er það nýtt landsdægurhámarksmet og mesti hiti sem mælst hefur á sjálfvirkri stöð í maí. Nýtt landsdægurhámarksmet var líka sett þ. 30. þegar hitinn mældist 23,8 stig á Skjaldþingsstöðum.

Úrkoma

Maí var úrkomusamur á landinu öllu og óvenju blautur á landinu vestanverðu.

Í Reykjavík mældist úrkoman í maí 128,8 mm sem er nærri þrefalt meira en í meðalári og sú mesta sem mælst hefur í maímánuði frá upphafi mælinga í Reykjavík. Þetta er þó ekki langt frá eldra meti sem er frá árinu 1989 þegar úrkoman mældist 126,0 mm. Á Akureyri mældist úrkoman 43,5 mm sem er meira en tvöfalt meira en að meðallagi í maí á Akureyri. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 113,2 mm sem er það mesta sem hefur mælst þar síðan árið 1875. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 188,6 mm.

Í maí rigndi hvern einasta dag í Reykjavík. Aðeins fjórum sinnum áður hefur rignt alla daga heilan mánuð í Reykjavík, síðast gerðist það í febrúar 2012. En dagar sem úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 23, þrettán fleiri en í meðalári og hafa aðeins tvisvar áður verið eins margir (árin 1896 og 1991). Slíkir dagar voru 9 á Akureyri, 4 fleiri en í meðalári.

Nokkur önnur maíúrkomumet voru sett, t.d. í Neðra-Skarði (151 mm), Hlaðhamri (97 mm), Hrauni á Skaga (128 mm), Skaftafelli (269 mm), Vatnsskarðshólum (295 mm), Hjarðarlandi (202mm), Keflavíkurflugvelli (154,9 mm) og á Nesjavöllum (495,7 mm). Úrkoman á Nesjavöllum er sú 4. mesta sem mælst hefur á landinu í maímánuði.

Snjór

Alhvítt varð 1 dag í Reykjavík og víða varð alhvítt sunnan og vestanlands í byrjun mánaðar. Einnig varð alhvítt víða vestan- og norðvestanlands síðar í mánuðinum. Alautt var á Akureyri allan mánuðinn.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 150,7, sem er 41 stund undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældust 170,9 sólskinsstundir sem er nærri meðallagi áranna 1961 til 1990.

Vindur

Vindhraði á landsvísu var um 1,0 m/s meiri en að meðaltali. Sunnanáttir voru ríkjandi. Hvassast var dagana 6. og 20. maí.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1004,1 hPa og er það 8,4 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1028,4 hPa á Höfn í Hornafirði þ. 25. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist á Gufuskálum, 971,0 hPa, þ.20. 

Fyrstu fimm mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu fimm mánuði ársins var 2,8 stig, sem er 0,9 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en -0,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 30. sæti á lista 148 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 2,2 stig, sem er 1,7 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast þar í 16.sæti á lista 138 ára. Úrkoma hefur verið um 45% umfram meðallag í Reykjavík og um 15% umfram meðallag á Akureyri.

Vorið (apríl og maí)

Vorið var úrkomusamt, óvenju mikil úrkoma var um landið vestanvert. Hlýtt var á Norðaustur- og Austurlandi.

Hiti var yfir meðallagi sé miðað við 1961 til 1990 ( í sviga síðustu tíu ár). Hann var +0,8 stigum yfir í Reykjavík (-0,1), +1,7 stigum yfir á Akureyri (+0,7), 1,1 stigi yfir í Stykkishólmi (-0,1) og +2,0 stigum yfir á Egilsstöðum (+1,2). Á Egilstöðum var vorið það sjöunda hlýjasta af 64.

Í Reykjavík var úrkoman 80% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi var úrkoman helmingi meiri en að meðaltali árin 1961 til 1990 og á Akureyri var úrkoman 35% umfram meðallag. 


Skjöl fyrir maí

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í maí 2018 (textaskjal).
Daglegtyfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægtsækja í sérstaka töflu.







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica