Tíðarfar í mars 2017
Stutt yfirlit
Tíð var lengst af hagstæð og samgöngur greiðar. Hiti var nærri meðallagi, en úrkoma heldur minni en venja er í flestum landshlutum nema sums staðar austanlands. Vindar voru talsvert hægari en oftast er í marsmánuði.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík mældist 1,8 stig og er það 1,3 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 0,4 stig, 1,6 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 en í meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 0,8 stig og 3,0 stig á Höfn í Hornafirði.
Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | mhiti °C | vik 1961-1990 °C | röð | af | vik 2007 til 2016 °C |
Reykjavík | 1,8 | 1,3 | 37 | 147 | 0,1 |
Stykkishólmur | 0,8 | 1,7 | 41 | 172 | 0,0 |
Bolungarvík | 1,0 | 2,2 | 21 | 120 | 0,7 |
Grímsey | 1,1 | 2,9 | 16 | 144 | 1,0 |
Akureyri | 0,4 | 1,6 | 37 til 38 | 136 | 0,0 |
Egilsstaðir | 1,0 | 2,4 | 18 | 63 | 0,9 |
Dalatangi | 2,6 | 2,5 | 14 | 79 | 1,0 |
Teigarhorn | 2,5 | 2,1 | 21 | 145 | 0,9 |
Höfn í Hornaf. | 3,0 | 0,8 | |||
Stórhöfði | 3,1 | 1,4 | 31 | 141 | 0,5 |
Hveravellir | -4,8 | 1,2 | 19 | 53 | -0,4 |
Árnes | 0,8 | 1,5 | 36 | 137 | 0,3 |
Meðalhiti og vik (°C) í mars 2017
Að tiltölu var hlýjast við norðaustur- og austurströndina, 1,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára á Raufarhöfn, Kaldast að tiltölu var inn til landsins á Vestur- og Norðvesturlandi, neikvæða vikið mest á Hvanneyri, -1,1 stig neðan meðallags síðustu tíu ára og -0,7 stig á Brúsastöðum í Vatnsdal og á Húsafelli.
Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 4,0 stig. Lægstur var meðalhitinn við Sátu, -5,9 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur i Svartárkoti, -3,4 stig.
Mest frost í mánuðinum mældist -23,3 stig í Svartárkoti þann 21. Mesta frost á mannaðri stöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þann 4., -18,6 stig. Hæsti hiti mánaðarins mældist 17,5 stig á Seyðisfirði þann 26. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 13,2 stig á Skjaldþingsstöðum þann 25.
Úrkoma
Úrkoma var minni en í meðalárferði um allt vestan- og norðanvert landið, en í ríflegu meðallagi á Austfjörðum og á Suðausturlandi. Hún mældist 51,5 mm í Reykjavík og er það um 62 prósent meðallagsins 1961 til 1990.
Á Akureyri mældist úrkoman nú 28,0 mm, um tveir þriðju hlutar meðalúrkomu. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 47,4 mm og 122,3 á Höfn í Hornafirði.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 12, tveimur færri en í meðalári.
Snjór
Alhvítt var 11 morgna í Reykjavík, einum færri en að meðaltali 1971 til 2000. Snjódýpt var óvenjumikil fyrstu dagana í Reykjavík, eftirhreytur af miklum snjó sem féll seint í febrúar. Þann 1. voru enn 36 cm af þeim snjó á jörðu og hefur snjódýpt í Reykjavík aldrei mælst meiri í mars.
Aðeins 1 alhvítur dagur var á Akureyri í marsmánuði, 18 dögum færri en að meðaltali. Þetta er óvenjulegt og hafa alhvítir dagar ekki orðið jafnfáir þar í mars síðan 2003. Í mars 1963 og 1964 var alautt á Akureyri – það hefur ekki gerst síðan.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 131,1, 20 fleiri en í meðalmarsmánuði, þær voru enn fleiri í þessum mánuði árið 2013. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 87,3, 11 fleiri en í meðalári.
Vindur
Vindhraði á landsvísu var um 1 m/s minni en að meðaltali og hefur ekki verið svona hægur í marsmánuði síðan 2002. Hvassast var dagana 23. til 25. en þá blés nokkuð hraustlega af suðri og síðar vestri. Austlægar áttir voru þó ríkjandi í mánuðinum eins og algengast er.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1001,6 hPa og er það -1,5 hPa undir meðaltali áranna 1961 til 1990. Hæstur mældist þrýstingurinn 1030,8 hPa í Grímsey þann 28. en lægstur 970,5 hPa þann 13. í Surtsey.
Fyrstu þrír mánuðir ársins
Fyrstu þrír mánuðir ársins hafa verið hlýir á landinu. Febrúar var sérlega hlýr. Í Reykjavík hafa þessir þrír mánuðir saman aðeins átta sinnum verið hlýrri en nú og sjö sinnum á Akureyri. Úrkoma hefur verið í ríflegu meðaltali í Reykjavík, en í meðallagi á Akureyri.
Veturinn (desember 2016 til mars 2017)
Nýliðinn vetur var óvenjuhlýr, desember og febrúar voru sérlega hlýir, en janúar og mars nær meðallaginu. Í Reykjavík er aðeins vitað um þrjá hlýrri vetur frá upphafi samfelldra mælinga 1870. Það eru 1963 til 1964, 1928 til 1929 og 2002 til 2003. Á Akureyri er þetta einnig fjórði hlýjasti veturinn og eru það sömu vetur og í Reykjavík sem voru hlýrri. Það sama á einnig við um Stykkishólm.
Úrkoma var um 30 prósent umfram meðallag í Reykjavík, en 10
prósent á Akureyri.
Skjöl fyrir mars
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í mars 2017 (textaskjal)
Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.