Fréttir
Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í október miðað við síðustu tíu ár (2014 til 2023).

Tíðarfar í október 2024

Stutt yfirlit

1.11.2024

Október var kaldur á landinu öllu. Það var kaldast á norðurhluta landsins en hlýrra sunnanlands. Tíð var þó nokkuð hagstæð, það var óvenjulega hægviðrasamt og úrkoma var undir meðallagi víðast hvar.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í október var 3,3 stig. Það er 1,5 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 2,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 0,8 stig sem er 2,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 3,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta var kaldasti októbermánuður á Akureyri síðan 1981. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 2,7 stig og 4,1 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2014-2023 °C
Reykjavík 3,3 -1,5 119 154 -2,2
Stykkishólmur 2,7 -1,7 143 179 -2,5
Bolungarvík 1,7 -2,0 113 127 -2,9
Grímsey 1,5 -2,3 130 151 -3,2
Akureyri 0,8 -2,7 128 144 -3,2
Egilsstaðir 2,1 -1,6 57 til 58 70 -2,2
Dalatangi 3,9 -1,2 73 87 -2,0
Teigarhorn 3,7 -1,3 114 152 -1,8
Höfn í Hornaf. 4,1


-1,7
Stórhöfði 4,7 -0,8 94 148 -1,3
Hveravellir -2,5 -1,9 49 til 50 60 -2,6
Árnes 2,2 -1,7 110 145 -2,2

Meðalhiti og vik (°C) í október 2024

Október var kaldur og hiti var vel undir meðallagi á landinu öllu. Að tiltölu var kaldara á norðurhluta landsins en eitthvað hlýrra sunnanlands. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -3,5 stig á Hornbjargsvita, en minnst -1,2 stig í Surtsey.


Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í október miðað við síðustu tíu ár (2014 til 2023).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 5,8 stig. Lægstur var hann á Þverfjalli -3,9 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti -1,7 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 14,2 stig í Skaftafelli þ. 18. Mest frost í mánuðinum mældist -19,1 stig í Möðrudal þ. 13.

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 72,4 mm sem er 90% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 44,7 mm sem er 60% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman í október 78,4 mm og 140,0 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 13, sem eru jafn margir og í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 9 daga sem er tveimur færri en í meðalári.

Snjór

Jörð var alauð alla morgna í Reykjavík nema tvo daga þegar það var flekkótt. Alhvítir dagar á Akureyri voru 8, sem er fimm fleiri en að meðaltali 1991 til 2020.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir mánaðarins mældust 115,3 í Reykjavík, sem er 23,7 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Sólskinsstundafjöldi mánaðarins í Reykjavík raðast í 13. sæti á lista 112 ára. Á Akureyri mældust sólskinsstundir októbermánaðar 56,6 sem er 8,7 stundum undir meðallagi.

Vindur

Október hægviðrasamur um allt land. Lægsti meðalvindur októbermánaðar þessarar aldar mældist á þónokkrum veðurstöðvum.

Vindur á landsvísu var 0,8 m/s undir meðallagi októbermánaða árin 1991 til 2020. Hvassast var dagana 18. (austnorðaustanátt) til 19. (sunnanátt) og þ. 25. (sunnanátt).

Loftþrýstingur

Loftþrýstingur var undir meðallagi víðast hvar. Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1002,6 hPa sem er 1,7 hPa undir meðallagi októbermánaða 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1028,4 hPa þ. 6. í Grímsey. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 950,0 hPa í Vestmannaeyjabæ þ. 18.

Fyrstu tíu mánuðir ársins

Meðalhiti fyrstu tíu mánaða ársins var 5,0 stig í Reykjavík. Það er 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 1,0 stigi undir meðallagi undanfarins áratugar. Meðalhiti mánaðanna tíu raðast í 87. til 88. hlýjasta sæti á lista 154 ára í Reykjavík. Á Akureyri mældist meðalhiti janúar til október 4,0 stig sem er 1,0 stigi undir meðallagi 1991 til 2020 og 1,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn á Akureyri raðast í 87. til 89. hlýjasta sæti á lista 144 ára. Fyrstu tíu mánuðir ársins hafa ekki verið eins kaldir í tæp 30 ár, hvorki í Reykjavík (kaldara 1995) né á Akureyri (kaldara 1998).

Það sem af er ári hefur úrkoma í Reykjavík mælst 660,7 mm. Það eru um 95% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri hafa mælst 494,4 mm. Það er um 14% umfram meðallag áranna 1991 til 2020.

Skjöl fyrir október

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í október 2024 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.








Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica