Persónuvernd á vedur.is
Öll meðferð og vinnsla persónuupplýsinga hjá Veðurstofu Íslands er í samræmi við persónuverndarstefnu Veðurstofunnar sem byggir á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Meðferð og úrvinnsla persónuupplýsinga á vedur.is
Vefsíða Veðurstofunnar safnar ekki sjálfkrafa persónugreinanlegum gögnum um notkun og notendur. Umferð um vefinn er mæld með Google Analytics, Siteimprove og Modernus, sem nota vafrakökur. Þessi tól eru notuð við vefmælingar. Þau safna upplýsingum við hverja innkomu á vefsíðuna, þ.e. dagsetningu og tíma, hvernig notandinn fer inn á vefsíðuna, hvaða vafra og tæki hann/hún notar. Einnig er skoðað hvort notað sé leitarorð.
Veðurstofan notar þessa þjónustu einnig til þess að huga að gæðum á vefnum, svo sem til að finna innsláttarvillur og brotna hlekki. Þessi gögn veita mikilvæga innsýn í hvernig við getum þróað vefinn og bætt virkni hans miðað við þarfir notenda en upplýsingar sem Veðurstofan aflar eru ekki persónugreinanlegar.
Innsend gögn
Þegar notandi sendir okkur almenna fyrirspurn í gegnum vefform er beðið um upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að við getum svarað fyrirspurninni (á borð við nafn, netfang og símanúmer). Það sama á við ef fyrirspurn er send með tölvupósti.
Eftir að almenn fyrirspurn hefur borist er unnið með upplýsingarnar í samræmi við persónuverndarstefnu Veðurstofunnar.
Milliliður í móttöku fyrirspurna er vefkerfi þjónustuaðila okkar sem hýst er í skýjalausn innan Evrópu [á vefþjóni staðsettum á Íslandi]. Innsendum gögnum er eytt úr vefkerfinu innan 180 daga og þar fer ekki fram nein frekari söfnun eða úrvinnsla gagna. Fyrirspurnir eru vistaðar í skjalavörslukerfi Veðurstofunnar á vefþjóni staðsettum á Ísland og skilað til Þjóðskjalasafns til varðveislu í samræmi við lög um opinber skjalasöfn.
Þegar notandi sendir okkur tilkynningu um jarðskjálfta, vatnsflóð, veðurfyrirbrigði eða snjóflóð er beðið um upplýsingar um tilkynnanda og eru þær upplýsingar geymdar í gagnagrunni Veðurstofunnar til frambúðar en unnið er með upplýsingarnar í samræmi við persónuverndarstefnu Veðurstofunnar.
Þegar óskað er eftir veðurvottorði er auk ofangreindra upplýsinga óskað eftir kennitölu til þess að hægt sé að senda reikning á beiðanda.
Persónuverndarfulltrúi
Hlutverk persónuverndarfulltrúa er að upplýsa viðkomandi stofnun eða fyrirtæki og starfsmenn þeirra um skyldur samkvæmt persónuverndarlögum, sinna þjálfun starfsfólks, framkvæma úttektir, veita ráðgjöf og vera til staðar komi upp álitaefni á sviði persónuverndar. Persónuverndarfulltrúi tekur jafnframt á móti fyrirspurnum og beiðnum frá þeim einstaklingum sem verið er að vinna með upplýsingar um. Þá skal persónuverndarfulltrúinn vera tengiliður við Persónuvernd og vinna með henni, sem og fylgjast með því að farið sé að persónuverndarlögum.
Persónuverndarfulltrúi er Hrafnhildur Valdimarsdóttir. Hægt er að hafa samband með því að hringja í síma 522-6000 eða senda tölvupóst á netfangið personuvernd@vedur.is.
Varnir gegn ruslpósti (e. spam)
Á þeim vefformum þar sem notandi getur sent inn upplýsingar höfum við virkjað sjálfvirka vörn gegn ruslpósti, svokallaða ReCAPTCHA virkni frá Google. Notendur gætu orðið varir við hana á þann hátt að þeir verði beðnir að leysa verkefni sem erfitt er fyrir forritaða sjálfvirkni að leysa.ReCAPTCHA aflar upplýsinga um vafra og vafranotkun og greinir þær til að meta hvort um er að ræða raunverulega notendur eða forritaða sjálfvirkni.
Þessi virkni ReCAPTCHA fellur strangt til tekið undir skilgreiningar persónuverndarlaga, en þær upplýsingar sem berast Google eru nafnlausar og innihalda ekki nein gögn sem notandi hefur slegið inn í viðkomandi form.Þessar varnir hafa reynst nauðsynlegar til þess að hægt sé að bjóða upp á formainnsendingu á vefnum.
Vilji notendur ekki undirgangast þá virkni sem ReCAPTCHA felur í sér er þeim bent á að senda okkur upplýsingar í tölvupósti í staðinn.