Fréttir
hvítt ljós og litarendur sjást í myrkri
Ósontæki Veðurstofu Íslands, Dobson 50, kom til Reykjavíkur árið 1957 og síðan þá er til nær óslitin mæliröð af ósoni. Tækið, Dobson 50, þykir óvenjugott eintak. Hér sést litróf kvikasilfurslampa eftir að það hefur verið speglað gegnum hægri prismuna.

Alþjóðadagur til verndar ósonlaginu

16.10.2009

Sameiginlegt átak

Rétt um mánuður er liðinn frá alþjóðadegi Sameinuðu þjóðanna til verndar ósonlaginu. Montreal bókunin um ósoneyðandi efni var undirrituð 16. september 1987 og sjö árum síðar var sú dagsetning valin. Þetta var bókun við Vínarsamninginn um verndun ósonlagsins. Þema ársins 2009 var "Alþjóðaþátttaka: Verndun ósonlagsins sameinar heiminn," og reyndar er þetta fyrsti alþjóðasamningurinn á sviði umhverfismála sem öll ríki heims, 196 að tölu, hafa staðfest.

Veðurstofur um víða veröld hófu reglubundnar ósonmælingar á sjötta áratugnum og þrjátíu árum síðar var stöðvakerfið samræmt af Alþjóðaveðurfræðistofnuninni, WMO. Ástandsskýrslur um óson byggja á þessum mælingum; sú síðasta kom út 2007 og sú næsta er væntanleg eftir tæp tvö ár.

Veðurstofa Íslands hefur lengi séð um þrenns konar ósonmælingar: Heildaróson upp í gegnum lofthjúpinn af þaki höfuðstöðvanna við Bústaðaveg, óson í heiðhvolfinu með háloftabelgjum sem sleppt er í Keflavík og óson við jörð á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.

Sá árangur að klórflúorkolefni (CFC) eru nú fátíð í iðnaðarframleiðslu og sú ákvörðun að notkun vetnis-klórflúorkolefna (HCFC) sem komu í staðinn skuli ekki aukast heldur fasast út, hefur tvíþætt góð áhrif því að þessi efni eru ekki aðeins skaðleg ósonlaginu heldur hafa einnig virkni sem verður að teljast til gróðurhúsaáhrifa. Klór skaðar ósonlagið en flúor hindrar vissan hluta varmageislunar frá jörðu, rétt eins og þekktari gróðurhúsalofttegundir gera, t.d. koldíoxíð.

Yfir suðurheimsskautinu er árstíðabundið gat eða þynning í ósonlaginu, eins og alþekkt er, og í ár kom gatið fyrr fram en venjulega; það verður víðfemast síðla í september og dýpst fyrri hluta októbermánaðar. Einnig er fylgst með breytingum á ósonlaginu yfir norðurheimsskautinu þó þar sé það talsvert þykkara.

Verið getur að loftslagsbreytingar og ósoneyðing séu tengdari en áður var talið. Hlýnun í veðrahvolfi jarðar fylgir kólnun í heiðhvolfinu sem hefur mælst bæði á norður- og suðurheimsskauti. Lægra hitastig örvar þau efnahvörf sem sundra ósonsameindum og eyða þar með ósonlaginu. Magn vatnsgufu í heiðhvolfinu hefur aukist um 1% á ári undanfarna áratugi. Þá eykst tíðni glitskýja sem auka líklega ósoneyðingu á báðum skautum jarðar.

Hvatt er til áframhaldandi vöktunar á ósoni á hnattræna vísu, bæði frá jörðu og með háloftabelgjum (sondum) og með upplýsingum úr gervihnöttum. Varað er við því að dregið sé úr rannsóknum á ósoni í heiðhvolfi, meðal annars vegna þeirrar skaðlegu útfjólubláu geislunar sem eyðing ósonlagsins veldur og vegna flókins samspils margra þátta í lofthjúpi jarðar.

Heimild: Fréttatilkynning nr 863 frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni, WMO.

Á vettvangi umhvefisráðuneytisins

Á Umhverfisþingi 2009, sem umhverfisráðuneytið stóð fyrir, voru eftirfarandi tillögur bornar fram varðandi óson:

  • Ísland verði áfram í hópi þeirra ríkja heims sem fremst eru í takmörkunum á notkun og losun ósoneyðandi efna
  • Stefnt verði að því að notkun ósoneyðandi efna verði hætt á Íslandi árið 2010
  • Ósoneyðandi efni verði endanlega horfin af markaði árið 2016 og förgun þeirra tryggð
  • Aukin verði fræðsla um áhrif sólbaða og útivistar í sólríku veðri, áhrif útfjólublárra geisla við yfirborð jarðar á heilsufar fólks og hvernig fyrirbyggja má sjúkdóma af völdum þeirra




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica