Alþjóðaveðurdagurinn 2012
Alþjóðaveðurdagurinn 23. mars
Á hverju ári í rúm 50 ár hefur Alþjóðaveðurfræðistofnunin kynnt starfsemi sína á alþjóðaveðurdeginum. Á þessu ári fer kynningin fram undir orðunum: Gæðum framtíðina mætti veðurs og vatns eða Powering our future with weather, climate and water. Í kynningarorðum veðurdagsins 2012 segir Michel Jarraud, aðalritari stofnunarinnar í lauslegri þýðingu:
Veður- og vatnafræðistofnanir heimsins stunda í sífellu söfnun og greiningu upplýsinga um veður, veðurfar og vatnafar. Þær nýtast þjóðum og mannkyni öllu til hagsældaraukningar, auk þess að vernda líf, lífsbjörg og eignir. Um þetta eiga stofnanir í 189 ríkjum farsæla samvinnu á vettvangi Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar.
Einkunnarorð ársins beina sjónum að því grundvallarhlutverki sem veður-, veðurfars- og vatnafræðiþjónusta gegnir í því að tryggja sjálfbæra framtíð fyrir okkar tíma og komandi kynslóðir.
Dæmi eru fjölmörg. Nauðsynlegt er að laga fæðuframleiðslu og dreifingu afurða að veðurfari og vatnsöflun á hverjum stað. Iðnaðarframleiðsla þarf á nægu vatni og orku að halda. Loft í borgum verður að vera gott, auk þess sem þær þarf að verja gegn náttúruhamförum, svo sem fárviðrum og flóðum. Alþjóðaviðskipti og ferðamennska byggjast á öruggum ferðaleiðum og flutningsháttum.
Þjóðfélagið þarf á síkvikum veðurspám að halda, jafnt í stóru sem smáu, allt frá þægindum og öryggi einstaklinga til ákvarðana sem varða milljarðafjárfestingar og fjölmörg þjóðlönd.
Veður- og vatnafar hefur sívaxandi áhrif á athafnir mannkyns og mannkynið hefur með iðju sinni vaxandi áhrif á það. Veður- og vatnafræðistofnanir heimsins eru í fararbroddi í rannsóknum á mjög flóknum tengslum manns og náttúrufars á hverjum stað, sem og á heimsvísu.
Við þurfum aldrei sem nú á trúverðugri framtíðarsýn um veðurlag og vatnafar að halda og hvernig áhrif og gagnáhrif breytinga verða, bæði staðbundið og í heiminum sem heild.
Eldra efni á vef Veðurstofunnar um alþjóðlega veðurdaginn: 2011, 2010, 2009, 2008.