Fréttir
Kortaspá. Dæmi um virkni í veðurappinu.

Veðurappið

Snjallsímaforrit Veðurstofu Íslands

10.9.2013

Veðurstofan hefur nú fyrir nokkru sent frá sér snjallsímaforrit, svokallað app, sem gerir notendum kleift að skoða veðurspár í snjallsíma á auðveldan hátt. Ýmis virkni er í boði, m.a. kortaspá sem birtir staðaspár allra stöðva á einu gagnvirku korti. Auðvelt er að þysja inn og út og draga kortið til.

Sé kveikt á staðsetningakerfinu GPS sýnir snjallsímaforritið sjálfkrafa veðurspá þar sem notandinn er staddur. Fyrir þá sem vilja ekki hafa kveikt á GPS er auðvelt að velja eigin landssvæði og festa á upphafsskjá.

Síðasta veðurathugun birtist efst. Síðan má skoða veðurspá nokkra sólarhringa fram í tímann og velja á milli myndrænnar spár og textaspár. Sjónskertir geta nýtt sér appið með því að velja upplestur á textaspá. Enn skal minnt á þá staðreynd, að sé mikill munur á staðaspá og textaspá þá gildir textaspáin.

Líkt og á vefnum eru spárit í boði fyrir þá sem kjósa slíka framsetningu.

Í appinu er hægt að skoða viðvaranir Veðurstofunnar. Biðja má um tilkynningu í símann ef veðurspáin uppfyllir skilyrði að eigin vali, t.d. varðandi hitastig, vind og/eða úrkomu.

Appið er sótt á Google Play Store eða Apple App Store. Leitarorðið er „veður“ (nota íslenskt „ð“).

Kennslumyndband

Myndskeið kennir notkun á veðurappinu. Hentugt er að sjá helstu skjámyndir áður en snjallsímaforritið er sett upp og skoðað í snjallsímanum.

Á vef Veðurstofunnar eru leiðbeiningar um notkun staðaspáa, leiðbeiningar með textaspám og listi yfir veðurtákn en þetta gæti nýst sem ítarefni fyrir þá sem hyggjast taka snjallsímaforritið í notkun.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica